Selfoss vann frábæran sigur á Aftureldingu, 28-29, á útivelli í 5. umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld.
Mosfellingar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddu allan tímann. Staðan var 14-11 í leikhléi og heimamenn höfðu góð tök á leiknum langt frameftir seinni hálfleik.
Þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum voru Selfyssingar fjórum mörkum undir, 26-22, en Elvar Örn Jónsson skoraði þá fjögur mörk í röð og jafnaði metin þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, 26-26.
Selfyssingar voru frábærir á lokakaflanum sem var æsispennandi og Einar Sverrisson tryggði þeim sigurinn þegar níu sekúndur voru eftir. Afturelding átti skot á síðustu sekúndunni úr erfiðri stöðu sem Sölvi Ólafsson varði snilldarlega.
Teitur Örn Einarsson og Elvar Örn Jónsson voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk, Atli Ævar Ingólfsson og Einar Sverrisson skoruðu 5, Guðjón Baldur Ómarsson og Haukur Þrastarson 2 og Hergeir Grímsson 1.
Markverðir Selfoss áttu erfitt uppdráttar í kvöld en Sölvi Ólafsson varði 7/1 skot, Helgi Hlynsson 1 og Anadin Suljakovic 1.
Eftir fimm umferðir eru Selfyssingar um miðja deild með 6 stig en efstu þrjú liðin, FH, Valur og Haukar eru með 8 stig.