Það var allt lagt í sölurnar í íþróttahúsi Vallaskóla í dag þegar Selfoss tók á móti ÍBV í Suðurlandsslag í Olís-deild karla í handbolta.
„Ég get ekki annað en hrósað strákunum. Liðsandinn og baráttan var góð en það voru auðvitað einhver atriði varnarlega sem við þurftum að gera betur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir leik. „Við vorum að elta og þetta datt með Eyjamönnum í dag. Bæði lið skora yfir 30 mörk og þetta var örugglega skemmtun fyrir áhorfendur. Þetta var ágætis handbolti en við höfum spilað töluvert hraðari leiki til þessa,“ sagði Patrekur ennfremur.
Eftir mikinn baráttuleik höfðu gestirnir betur, 30-31, en jafnræði var með liðunum allan leikinn og staðan 15-17 í leikhléi.
Teitur Örn Einarsson og Haukur Þrastarson voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk, Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 5 og nýtti sín færi mjög vel, Hergeir Grímsson og Einar Sverrisson skoruðu 4 og Atli Ævar Ingólfsson 3. Sverrir Pálsson komst ekki á blað en hann lét vel til sín taka í vörninni.
Helgi Hlynsson varði 11/2 skot í marki Selfoss og Sölvi Ólafsson 2.
Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 10 stig að loknum átta umferðum.