Kvennalið Selfoss var grátlega nálægt stigi þegar liðið tapaði naumlega fyrir Haukum á heimavelli í Olísdeildinni í handbolta í kvöld.
Liðin eru að berjast á sitthvorum endanum á töflunni, Haukar í toppbaráttu og Selfyssingar í neðri hlutanum. Það var ekki að sjá í kvöld því leikurinn var jafn og spennandi allan tímann.
Staðan í hálfleik var 10-11 Haukum í vil og seinni hálfleikurinn var í járnum.
Lokasekúndurnar voru æsispennandi. Harpa Brynjarsdóttir jafnaði 22-22 þegar 30 sekúndur voru eftir af leiknum en Haukar náðu að knýja fram sigur með marki þegar þrjár sekúndur voru eftir. Lokatölur 22-23.
Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir og Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoruðu báðar 4 mörk, Harpa Brynjarsdóttir 3 og þær Arna Kristín Einarsdóttir og Viviann Petersen skoruðu eitt mark hvor.
Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar með 7 stig en Haukar eru í 2. sæti með 26 stig.