Selfyssingar eru komnir upp í 2. sæti Olísdeildar karla í handbolta eftir frábæran útisigur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld, 35-36.
Eyjamenn höfðu frumkvæðið í leiknum lengst af og leiddu í leikhléi, 19-14.
Selfyssingar voru þremur mörkum undir, 29-26, þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þeir gerðu þá 6-1 áhlaup og breyttu stöðunni í 30-32 á skömmum tíma. Lokamínúturnar voru æsispennandi en Selfyssingar komust tveimur mörkum yfir þegar rúm mínúta var eftir og Eyjamenn náðu ekki að snúa leiknum sér í vil þrátt fyrir mikla baráttu.
Selfoss er nú með 30 stig í 2. sæti deildarinnar en ÍBV er í 3. sæti með 28 stig og á leik til góða.
Einar Sverrisson átti frábæran leik fyrir Selfoss en hann var markahæstur með 8 mörk og sterkur í vörninni. Atli Ævar Ingólfsson var sterkur á línunni og skoraði 7 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 7/2, Richard Sæþór Sigurðsson átti fínan leik og skoraði 5 mörk og Árni Steinn Steinþórsson 4. Elvar Örn Jónsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu báðir 2 mörk og Sverrir Pálsson 1 en Sverrir stóð sig mjög vel í vörninni.
Helgi Hlynsson varði 6 skot í marki Selfoss og Sölvi Ólafsson 3.