Selfoss tapaði fyrir Fram í undanúrslitum bikarkeppni karla í handbolta í kvöld eftir ótrúlega dramatík í Laugardalshöllinni. Vítakastkeppni þurfti til að knýja fram úrslit.
Leikurinn var jafn lengst af fyrri hálfleik en undir lok hans skoruðu Selfyssingar þrjú mörk í röð og leiddu 15-12 í leikhléi. Leikmenn beggja liða voru lengi í gang í seinni hálfleik en um hann miðjan voru Framarar búnir að jafna, 17-17.
Í kjölfarið kom slæmur kafli hjá Selfyssingum þar sem markvörður Framara fór á kostum og þremur mínútum fyrir leikslok var staðan 21-23. Selfyssingar skiptu þá yfir í 3-3 vörn og náðu að jafna þegar tæp mínúta var eftir. Bæði lið fengu tækifæri til að skora sigurmarkið á lokamínútunni en gekk ekki og því þurfti að framlengja.
Framlengingin var hnífjöfn en Selfyssingar fengu boltann í stöðunni 27-27 þegar tæp mínúta var eftir. Aftur var markvörður Fram í sviðsljósinu því hann varði tvö skot í röð á lokasekúndunum og því varð að grípa til vítakeppni.
Þar skoruðu Framarar úr öllum sínum vítaskotum en Teitur Örn Einarsson skaut í stöng úr sínu skoti og Fram tryggði sér þar með sæti í úrslitaleiknum á morgun gegn ÍBV.
Teitur Örn var markahæstur hjá Selfyssingum með 8/1 mörk. Elvar Örn Jónsson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu báðir 6/1 mörk, Árni Steinn Steinþórsson 5/1 mörk, Haukur Þrastarson 2/1 og þeir Richard Sæþór Sigurðsson og Sverrir Pálsson skoruðu sitt markið hvor. Sverrir átti góðan dag í vörninni og var með átta brotin fríköst og þar á eftir kom Haukur með sjö.
Sölvi Ólafsson varði 15 skot í marki Selfoss og var með 35% markvörslu.