Selfoss vann mjög öruggan sigur á Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta í dag. Lokatölur á Selfossi urðu 33-25.
„Ég er ánægður með sigurinn. Það var margt gott í þessu í dag og ég var sérstaklega ánægður með strákana sem komu inn af bekknum. Menn fóru eftir planinu,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Stemmningin í húsinu var frábær og ég vona innilega að við fáum sama stuðning á mánudagskvöld. Þetta gefur okkur svo mikinn kraft. Strákarnir fengu orkuna úr fólkinu og ég held að fólkið hafi skemmt sér mjög vel í dag.“
Öruggt forskot mest allan leikinn
Selfoss skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins en Stjarnan jafnaði 4-4 þegar fjórtán mínútur voru liðnar. Þá tóku Selfyssingar af skarið, skoruðu fjögur mörk í röð og juku forystuna mest í sjö mörk í kjölfarið. Staðan var 15-10 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var í ákaflega öruggum höndum Selfyssingar sem höfðu sex marka forskot lengst af en bættu svo í undir lokin.
Árni Steinn vígalegur í vörninni
Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssingar með 8 mörk en maður leiksins var Árni Steinn Steinþórsson sem skoraði 7 mörk og var algjörlega frábær í vörninni með tíu brotin fríköst.
Hergeir Grímsson skoraði 5 mörk, Elvar Örn Jónsson 4, Atli Ævar Ingólfsson 3, Richard Sæþór Sigurðsson og Einar Sverrisson 2 og þeir Haukur Þrastarson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu báðir 1 mark.
Sölvi Ólafsson varði 11 skot í marki Selfoss og var með 35% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 5 skot og var með 50% markvörslu.
Næsti leikur á mánudagskvöld
Næsti leikur liðanna verður í Garðabænum á mánudagskvöld og takist Selfyssingum að vinna eru þeir komnir í undanúrslit.