Selfyssingar í undanúrslit

Selfyssingar eru komnir í undanúrslit um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta eftir góðan sigur á Stjörnunni á útivelli í kvöld. Lokatölur urðu 28-30 og Selfoss vann einvígið 2-0.

Selfyssingar áttu afleita byrjun í leiknum. Stjarnan komst í 5-1 áður en Patrekur Jóhannesson tók leikhlé og messaði yfir sínum mönnum. Selfoss minnkaði muninn í kjölfarið í 6-4 en Stjarnan hafði frumkvæðið út fyrri hálfleikinn.

Selfyssingar töpuðu mörgum boltum í fyrri hálfleik en Helgi Hlynsson hrökk í gang í markinu og bjargaði því sem bjargað varð. Hann varði sjö skot í fyrri hálfleik og staðan var 16-13 í leikhléi.

Jafnt og spennandi í seinni hálfleik
Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik. Selfoss náði 3-1 kafla fljótlega eftir leikhlé og komst svo yfir í fyrsta skipti, 20-21, þegar 41 mínúta var liðin af leiknum. Eftir það var jafnt á öllum tölum upp í 26-26 þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Þá skoruðu Selfyssingar tvö mörk í röð. Sú forysta dugði liðinu til leiksloka þrátt fyrir nokkur mistök á lokakaflanum.

Hergeir markahæstur
Helgi hélt áfram að verja mikilvæg skot og átti þegar upp var staðið frábæran leik með 15 varin skot. Hergeir Grímsson var sömuleiðis öflugur, skoraði tíu mörk í kvöld og var að öðrum ólastaður maður leiksins.

Teitur Örn Einarsson skoraði 6 mörk, Einar Sverrisson 4/2, Haukur Þrastarson og Elvar Örn Jónsson 3, Atli Ævar Ingólfsson 2 og þeir Árni Steinn Steinþórsson og Sverrir Pálsson skoruðu sitt markið hvor.

Selfoss mætir FH í undanúrslitunum og hefst einvígið 24. eða 25. apríl. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslitarimmuna, annað hvort gegn ÍBV eða Haukum.

Fyrri greinAllt frá ABBA til Árnesþings
Næsta greinJón Ingi sýnir á Bókasafninu í Hveragerði