Selfyssingar eru úr leik í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í handbolta eftir 26-29 tap gegn FH í oddaleik á Selfossi í kvöld. FH sigraði einvígið 3-2.
FH-ingar byrjuðu betur í leiknum og náðu fljótlega góðu forskoti. Staðan var 12-15 í leikhléi.
Gestirnir bættu um betur í upphafi seinni hálfleiks og náðu mest fimm marka forskoti þegar fimmtán mínútur voru eftir, 18-23. Selfyssingar tóku þá leikhlé og við tók frábær kafli þar sem þeir vínrauðu skoruðu fjögur mörk í röð og minnkuðu muninn í 22-23. Vallaskóli nötraði og skalf á þessum kafla en Selfyssingar voru eins og alltaf dyggilega studdir úr stúkunni.
Lokakaflinn var Selfyssingum hins vegar erfiður og þá helst Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH, sem átti stórar vörslur á lykilaugnablikum. FH jók muninn aftur og sigraði með þremur mörum.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8/2 mörk og átti enn einn góða leikinn í einvíginu. Elvar Örn Jónsson skoraði 6 mörk og var sterkur í vörninni, Haukur Þrastarson skoraði 3, Guðni Ingvarsson, Richard Sæþór Sigurðsson og Teitur Örn Einarsson 2 og þeir Sverrir Pálsson, Árni Steinn Steinþórsson og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu allir 1 mark
Sölvi Ólafsson varði 18 skot í marki Selfoss og var með 40% markvörslu.
Þetta var síðasti handboltaleikurinn sem spilaður var í Vallaskóla en handknattleiksdeild Selfoss flytur nú starfsemi sína yfir í íþróttahúsið Iðu.