Selfoss tapaði 24-30 þegar Íslandsmeistarar Fram kom í heimsókn í Iðu í 1. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í kvöld.
Leikurinn var jafn á upphafsmínútunum en fljótlega náði Fram þriggja marka forskoti, 3-6. Munurinn varð mestur fimm mörk en Selfoss náði að minnka muninn niður í tvö mörk fyrir leik hlé og staðan var 13-15 í hálfleik.
Selfyssingar byrjuðu ágætlega í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn í 18-19 þegar rúmar tólf mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þá kom góður kafli Framara sem bættu jafnt og þétt við forskotið og unnu að lokum með sex mörkum.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 7 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu 6 mörk, Sarah Boye 2 og þær Hulda Dís Þrastardóttir, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir og Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoruðu allar 1 mark.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 11/1 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu.