Sebastian áfram með Selfoss

Sebastian Alexandersson mun áfram þjálfa meistaraflokk Selfoss í handbolta en liðið sigraði í 1. deild karla í vor og leikur í N1 deildinni á næsta tímabili.

Stjórn Selfoss og Sebastian hafa gert munnlegt samkomulag og að öllum líkindum mun Sebastian einnig leika áfram með liðinu. Ekki hefur verið gengið frá ráðningu aðstoðarþjálfara en Finnbogi Sigurbjörnsson, sem aðstoðaði Sebastian í vetur, hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Fylkis.

Þá hafa Selfyssingar samið við markvörðinn Birki Fannar Bragason um að leika áfram með liðinu og verið er að endurnýja samninga fleiri leikmanna. Ragnar Jóhannsson og Atli Kristinsson eru samningsbundnir liðinu og Hallur Halldórsson, formaður deildarinnar, sagði í samtali við sunnlenska.is að leikmannahópurinn muni halda sér að langmestu leiti.

Ramunas Mikalonis mun þó leggja skóna á hilluna eftir tíu ár í herbúðum Selfyssinga.

Fyrri greinNý stjórn Samfylkingar í Árborg
Næsta greinBygging stórhýsis á Hellu í biðstöðu