Markadrottningin Olga Færseth hefur ákveðið að taka fram skóna á nýjan leik og leika með Selfoss í 1. deild kvenna í knattspyrnu.
„Við erum að fara inn í þannig baráttu að það er gott að fá svona reynslumikinn leikmann inn í hópinn. Markahæsti leikmaður okkar, Katrín Ýr, meiddist um daginn og við vitum ekki alveg hvað það þýðir, þannig að það er gott að fá Olgu inn,“ sagði Helena Ólafsdóttir, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.
Olga lék síðast með KR í Landsbankadeildinni sumarið 2008. Hún er langmarkahæst þeirra sem leikið hafa í efstu deild, hefur skorað 269 mörk í 217 leikjum.
„Já, hún hefur ekki spilað í rúmt ár og við förum hægt af stað með hana. En það er frábært að fá hana inn á æfingar og gott fyrir stelpurnar að fá svona lærimeistara. Þetta er eins og að fá þjálfara inn á völlinn,“ sagði Helena ennfremur.
Þá hefur Selfoss fengið annan reynslumikinn leikmann til liðs við sig, markvörðinn Dúfu Dröfn Ásgeirsdóttur. Dúfa skiptir til Selfoss frá 1. deildarliði Hattar en hún hefur áður leikið með Keflavík og Breiðablik í efstu deild.