Kjartan Atli Kjartansson hefur verið ráðinn þjálfari 1. deildarliðs FSu í körfubolta auk þess sem hann mun verða yfirþjálfari yngri flokka FSu.
Kjartan, sem er 26 ára gamall, hefur leikið með Stjörnunni síðustu ár og þjálfað yngri flokka þar. Hann tekur við stjórninni hjá FSu af Vali Ingimundarsyni, sem þjálfað hefur í Fjölbrautaskólanum undanfarið ár.
,,FSu hafði samband við mig eftir tímabilið í vor. Góðvinur minn Brynjar Karl byggði FSu upp og við höfum oft rætt um árin hans þar. Svo kom þetta upp og þá fannst mér þetta spennandi tækifæri fyrir mig sem þjálfara. Frábær aðstaða og virkilega spennandi stjórn, hef heyrt mjög góða hluti um hana. FSu er virkilega spennandi tækifæri og ég fer þangað fullur tilhlökkunnar,“ sagði Kjartan Atli í samtali við Karfan.is en hann lék 29 leiki í úrvalsdeild með Stjörnunni á nýafstaðinni leiktíð og var með 5,1 stig að meðaltali í leik.
,,Ég verð fyrst og fremst þjálfari á Selfossi. Ég hef ekki gert það upp við mig hvort ég spila, eða hversu mikið. Eina sem ég veit er að ég er að vinna með einkaþjálfara og ætla að mæta til leiks í toppformi. Mitt helsta verk verður að bæta þá stráka sem eru að spila með liðinu og það verður gert með því að æfa meira en aðrir. Ég verð svo yfirþjálfari yngriflokkanna og hef auðvitað mikla reynslu af svona uppbyggingastarfi með Stjörnunni þannig að þetta er eitthvað sem ég hef ákveðna reynslu af og fékk að sjá á eigin skinni hvað virkaði og hvað virkaði ekki þegar við vorum að byggja upp í Garðabænum,“ sagði Kjartan ennfremur.
Ekki liggur fyrir hvernig leikmannahópur FSu verður næsta vetur en liðið hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku þar sem besti leikmaður síðasta tímabils, Valur Orri Valsson, hefur gengið í raðir Keflavíkur.