Nú eru tæpir tveir mánuðir þangað til sveitarfélög taka yfir þjónustu við fatlaða frá ríkinu.
Einu svörin sem ég heyri þegar ég ræði við fólk um þessa grundvallarbreytingu á málefnum fatlaðra, hvort sem er hjá starfsmönnum sveitarfélaga eða ríkis, á meðal þeirra sem sinna þjónustu við fatlaða og ekki síst á meðal fatlaðra sjálfra eru „líklega fínt“ eða „líklega slæmt“.
Í raun eru þetta mjög eðlileg svör þar sem enginn veit hvað gerist eftir áramót. Ekki er enn búið að birta lögin sem taka eiga gildi um áramót, ekki er búið að semja við sveitarfélög og hvað þá ræða við hina fötluðu sjálfa eða þá sem þeim þjóna. Það eina sem virðist vera öruggt er að þessu kerfi verður umturnað hvað sem hver segir, þó ekkert sé orðið ljóst um afleiðingar breytinganna.
Öll þjónusta er í óvissu en hættan er áberandi á meðal sjálfseignastofnana eins og Skálatúns, Sólheima og fleiri, sem við fyrirhugaðar breytingar falla inn undir væng sveitarfélaga sem eru misburðug til að þjóna svo stórum þjónustukjörnum fyrir fatlaða.
Sem dæmi á Árborg að þjóna 43 einstaklingum frá Sólheimum en þjónar í núverandi kerfi 23 einstaklingum. Þessir einstaklingar eru fæddir út um allt land og hafa búið mislengi á Sólheimum. Margar spurningar brenna á starfsfólki Sólheima vegna þessara breytinga en sú fyrsta er einfaldlega hvort Árborg treystir sér yfir höfuð til að standa á bakvið rekstur Sólheima, en eins og fram hefur komið í fréttum er sveitarfélagið síður en svo fjárhagslega burðugt.
Staðan fyrir íbúa á Sólheimum er í dag alger óvissa. Það eru svo sem ekki nýmæli því ef rýnt er í söguna má sjá að misvitrir embættismenn hafa allt frá stofnun Sólheima fyrir 80 árum haft ýmislegt á hornum sér gagnvart því starfi sem þar er unnið, hvort sem það snýr að mataræði íbúa, blönduðu samfélagi fatlaðra og ófatlaðra, tískusveiflum í aðferðafræði varðandi þjónustu við fatlaða eða bara einföldum hrepparíg.
Færri virðast gefa því raunverulegan gaum hvernig íbúar staðarins dafna og þroskast, eða hvernig þeim líður. Verði af flutningum á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga óttast íbúar Sólheima að örfáir einstaklingar innan lítils sveitarfélags geti með geðþóttaákvörðunum rústað þeirri uppbyggingu sem þar hefur verið unnin í anda Sesselju Sigmundsdóttur, stofnanda Sólheima.
Erlendur Pálsson
Forstöðumaður atvinnusviðs Sólheima og íbúi á Sólheimum