Eftir rétta viku hefst Landsmót UMFÍ á Selfossi en keppni hefst eftir hádegi fimmtudaginn 4. júli.
Landsmótsgesti fer væntanlega að drífa að fljótlega upp úr næstu helgi og verður örugglega straumur fólks á staðinn þegar líður að mótshelginni. Við búumst við allt að 2.000 keppendum og fjölda áhorfenda og annarra gesta þannig að það verður vonandi fjölmennt á Selfossi. Því biðjum við heimamenn að sýna tillitssemi og nokkra þolinmæði því við megum búast við aukinni umferð bæði akandi og gangandi fólks. Þessu munu fylgja truflanir á umferð, aðallega umhverfis aðal keppnisstaðina sem við biðjum fólk um að taka með bros á vör.
Landsmótið verður sett á Selfossvelli föstudaginn 5. júlí kl. 21 og bjóðum við alla Selfyssinga og Sunnlendinga velkomna á setningarathöfnina. Við hvetjum heimamenn og gesti til að njóta landsmótsins, fylgjast með keppni og hvetja keppendur, mæta á viðburði og fyrirlestra og taka þátt í opinni keppni sem er í boði í 10 km götuhlaupi, pútti og boccia.
Við viljum sérstaklega benda á mjög áhugaverða fyrirlestra sem haldnir verða í hátíðasal FSu. Þar byrja Selfyssingar sem eru í fremstu röð í heiminum. Þórir Hergeirsson, þjálfari heims- og Ólympíumeistara Noregs í handknattleik kvenna, mun halda fyrirlestur á fimmtudaginn 4. júlí kl. 20 og Vésteinn Hafsteinsson þjálfari Ólympíumeistara í kringlukasti mun halda fyrirlestur á föstudaginn 5. júlí kl. 18. Báðir þessir höfðingjar eru heimsþekktir og hafa áhugaverðan og uppbyggilegan boðskap að flytja. Á eftir þeim koma svo fleiri áhugaverðir fyrirlestrar, meðal annars um næringu íþróttafólks og markmiðasetningu. Þá verður sérstök skemmtidagskrá í miðbæjargarðinum á Selfossi á laugardagskvöld að lokinni keppni.
Skipulagi keppninnar hefur verið breytt nokkuð frá fyrri mótum. Meiri áhersla er lögð á keppni á laugardegi og sunnudegi þegar úrslit fara fram í hópíþróttum auk þess sem einstaklingskeppnin verður á fullum krafti. Þannig verður mest umleikis yfir helgina sjálfa sem gefur bæði keppendum og gestum færi á að njóta margra spennandi en ólíkra viðburða á skömmum tíma. Spennandi íþróttakeppni er auðvitað aðalskemmtun landsmótanna. Mótinu verður síðan slitið með afhendingu heildarverðlauna á Selfossvelli kl. 17 á sunnudeginum 7. júlí en allar nánari upplýsingar má fá á heimasíðu mótsins.
Sjáumst á landsmóti með bros á vör.
Þórir Haraldsson,
formaður framkæmdanefndar.