Það styttist í biskupskjör og til þessa hlutverks landshirðis þjóðkirkju Íslands hafa átta kirkjunnar þjónar gefið kost á sér.
Sem einn þeirra er þann hóp fylla skrifa ég þessar línur öllum þeim sem kynnu að hafa hug á málefnum kirkjunnar í landinu. Skynsemi er huglæg viðleitni manna til að höndla tilveru sína og skilja samhengi þeirra fyrirbæra sem þeim mæta. Trúin er ekki skynsemdarlaus. Hún er þó umfram allt annað lífssamband manna við Skaparann í nafni Jesú Krists. Þjóðkirkjan glímir nú í anda trúar og skynsemi við þá stöðu sína að fleiri og stærri spurningarmerki eru sett við þátt hennar í samfélaginu og þjóðskipulaginu. Í þeirri stöðu þarf hún ekki aðeins að leita vel orðaðra svara heldur umfram annað að grípa til viðbragða sem í senn sæma henni og birta svar hennar landsmönnum.
Þannig er það með sérhvern þann veg sem mönnum er boðið að ganga, að ekki er nóg að tala um hann heldur þarf að benda á hann og helst að birta þeim hann. Öll höfum við sem gefið höfum kost á okkur í embætti Biskups Íslands talað í einlægni um að hin breytta staða þjóðkirkjunnar brenni nokkuð á okkur og ekki síst tilefni hennar, hið dvínandi traust landsmanna á henni. Ég hef lagt á það áherzlu með þessum vinum mínum öllum að kirkjan þurfi að hyggja betur að lífserindi sínu við menn en að auki bent á það að embætti Biskups Íslands sé danskur arfur sem við þurfum að gera upp við. Ég legg til þess bæði málefnaleg sjónarmið og svo hagnýt að þau hljóta að koma til skoðunar á allra næstu árum.
Þau eru að umsvif biskupsembættisins í Reykjavík séu orðin allt of mikil, dýr og þurftarfrek og gagnist í litlu efni starfi kirkjunnar í landinu öllu. Þá er það hvorki einum manni hollt að gegna þessu né heldur kirkjunni og starfi hennar. Það hafa dæmin sýnt okkur síðustu árin. Því þarf að færa biskupsþjónustu nær fólkinu í landshlutunum og búa þannig um hana að söfnuðir þjóðkirkjunnar hvarvetna njóti hennar í ríkara mæli.
Áður voru vígslubiskupar þjóðkirkjunnar sóknarprestar sem höfðu það hlutverk að til þeirra mætti grípa er vígja þyrfti nýjan biskup í landinu, í þeim aðstæðum að þeim sem úr biskupsstóli viki yrði ekki við komið. Þessu hefur nú verið breytt til hálfs, þannig að vígslubiskuparnir sitja á Hólum og í Skálholti með óljóst hlutverk svo ekki sé meira sagt. Okkur ber því að stíga skrefið til fulls hvað þetta varðar og vinna að því að gera embætti vígslubiskupa fullmyndug í sjálfstæðum biskupsdæmum.
Við þurfum ekki lengur að una þeirri skipan sem til varð 1801 er yfirvöld ákváðu að leggja niður þau tvö biskupsdæmi okkar og gerðu landið að einu kirkjustifti af 12 í kirkju Danakonungs. Hið fagra býr ekki ósjaldan í því sem smærra er og unnt er að sýna viðeigandi ræktarsemi. Hugum að þessu í alvöru. Þetta er ekki aðeins hægt heldur er það auðvelt og raunar nauðsynlegt. Þessi er tillaga mín ásamt þeirri endurnýjun hugarfarsins sem okkur er nauðsynlegt að tileinka okkur í kirkjulegum efnum. Trúin á Krist er ekki háð kerfi sem á rætur í danska kanselíinu og dagaði hér uppi 1944 við lýðveldisstofnun og hefur orðið að miklu bákni. Evangelísk-lúthersk þjóðkirkja okkar er, hvort heldur er samkvæmt stjórnarskrá ríkisins eða ekki, ein og hin sama þó biskupar hennar og umdæmi þeirra verði tvö eða þrjú. Eitt og annað verður í þessu efni að útfæra nánar og það segir sig sjálft að eigi þjóðkirkjusamfélagið að rétta úr kútnum verður það að gerast mjög út á meðal fólks og birtast í orði og í verki. Þá er framtíðin ekki kvíðaefni, heldur tilefni fögnuðar þegar þjóðkirkjan ekki aðeins talar heldur starfar sem henni ber.
Með blessunarósk, Þórir Jökull Þorsteinsson.