Færeyingum var boðið til þjóðaratkvæðagreiðslu 1946 um fullt sjálfstæði eyjanna, tveim árum eftir lýðveldisstofnunina á Þingvöllum 1944.
Sambandsflokkurinn, stærsti flokkur Færeyja, lagðist gegn sjálfstæði eins og hann gerir enn, en hann treysti því ekki, að kjósendur fylgdu leiðsögn hans, og fór því að eins og Sjálfstæðisflokkurinn nú: hann gerði lítið úr atkvæðagreiðslunni fyrir fram og hvatti fólk til að sitja heima eða skila auðum eða ógildum atkvæðaseðlum.
Aðför Sambandsflokksins að lýðræðinu mistókst, kjörsókn var 67%. Sjálfstæðissinnar sigruðu með 51% atkvæða gegn 49%. (Nánar tiltekið fengu sjálfstæðissinnar 49%, sambandssinnar 47%, og 4% atkvæðaseðla voru auð eða ógild.) Færeyska þingið lýsti fáeinum dögum síðar yfir stofnun lýðveldis að íslenzkri fyrirmynd.
Eigi að síður ákvað kóngurinn, Kristján tíundi, fyrir hönd dönsku stjórnarinnar að hafa úrslitin og ákvörðun lögþingsins að engu, sendi herlið til Færeyja, leysti þingið upp á þeirri forsendu, að lýðveldisstofnun í Færeyjum bryti gegn stjórnarskránni, og boðaði til nýrra kosninga. Þarna voru framin reginsvik við færeysku þjóðina, en Færeyingar fengu að vísu heimastjórn 1948.
Öruggasta leiðin til að tryggja, að sams konar svik verði ekki framin á Íslandi, er að fara á kjörstað og kjósa um frumvarp Stjórnlagaráðs 20. október eða fyrr. Kjósendur hafa aldrei áður fengið slíkt tækifæri til að kjósa um jafnt vægi atkvæða, auðlindir í þjóðareigu, greiðan aðgang að upplýsingum og aðrar slíkar réttarbætur. Nú er lag. Látum ekki einstakt tækifæri okkur úr greipum ganga. Sýnum viljann í verki. Kjósum.
Þorvaldur Gylfason.