Kjördæmavika Alþingis er að baki. Þá starfar þingið ekki heldur gefst alþingismönnum færi á að fara um kjördæmin sín og heilsa upp á fólk á heimaslóðum sínum.
Allir þingmenn Suðurkjördæmis ferðuðust saman í kjördæmavikunni og hittu sveitarstjórnarfólk í síðustu viku. Að baki eru nær 1.400 kílómetra akstur og það segir sína sögu.
Þingmenn funduðu með sveitarstjórnum og við áttum þar uppbyggileg og góð samtöl um það sem helst brennur á þeim sem eru í forystu á hverjum stað.
Sömu eða svipuð megináhersluatriði eru í sveitarfélögunum en auðvitað eru líka sérhæfðari mál sem áhersla er lögð á hér og þar. Á góma bar heilbrigðismál, samgöngur og orkumál en einnig skólamál og menntun, landbúnaðarmál, fæðuöryggi og fjölbreytileiki atvinnulífs.
Einnig funduðu þingmenn með lögreglustjórum og fóru yfir málefni lögreglunnar. Brýnt er að fjölga lögreglumönnum til þess að tryggja öryggi borgaranna enda er á hverjum tíma gríðarlegur fjöldi gesta í kjördæminu, bæði ferðamenn og allur sá fjöldi sem á eða er í sumarbústöðum.
Suðurkjördæmi er víðfeðmt og fjölbreytt. Þar er hliðið að Íslandi, Keflavíkurflugvöllur. Um það bil helmingur orku landsmanna verður til í Suðurkjördæmi og þar eru margar af vinsælustu náttúruperlum landsins. Mörg öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eru í Suðurkjördæmi og síðast en ekki síst er þar að finna ótrúlega mikinn mannauður. Svo mætti áfram telja.
Það er verkefni okkar allra að efla kjördæmið enn frekar, treysta innviði og skapa umgjörð vaxtar og velsældar. Við þingmenn kjördæmisins erum samhentur hópur og ætlum okkur að standa vel við bakið á íbúum kjördæmisins.
Við þökkum góðar móttökur og horfum full tilhlökkunar til starfsins á komandi þingvetri.
Fyrir hönd þingmanna kjördæmisins,
Guðrún Hafsteinsdóttir