Kæru Sunnlendingar,
ég vil þakka fyrir góðar og ánægjulegar viðtökur síðastliðnar vikur á ferð okkar um allt kjördæmið. Við fundum fyrir miklum meðbyr og góðvild og fyrir það erum við þakklát.
Það er mín sýn eftir þessa kosningabaráttu að stærsta auðlindin sem við eigum er mannauðurinn okkar, fólkið okkar. Við eigum stórkostlegt hugsjónarfólk um land allt, sem lætur ekki kerfið, veðurfar eða mótlæti stoppa sig í sínum daglegum verkefnum.
Miðflokkurinn er ekki allra, Miðflokkurinn er „örlítill grenjandi minnihluti“. En Miðflokkurinn er okkar sem eigum þá hugsjón sameiginlega að treysta byggðir landsins og landbúnað, með þeirri trú að við getum gert betur og von um að okkur takist það. Helsti styrkleiki Miðflokksins er stefnufesta, skynsamleg og málefnaleg nálgun, innihald umfram umbúðir. Með okkar helsta styrkleika að leiðarljósi munum við halda ótrauð áfram staðráðin í því að gera enn betur næst.
Ég vil að lokum óska nýkjörnum þingmönnum Suðurkjördæmis til hamingju með kjörið og velfarnaðar í þingstarfinu.
Með vinsemd og virðingu,
Heiðbrá Ólafsdóttir,
formaður Miðflokksins í Rangárþingi.