Aðventa og jól í Hveragerðisbæ

Hveragerðisbær mun iða af lífi á aðventunni og alveg fram yfir jól. Skólar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir ætla sannarlega að sjá til þess að Hvergerðingar og gestir njóti aðventunnar og jólanna til hins ítrasta. Það má glögglega sjá á stútfullri viðburðadagskrá sem komin er út á prentuðu og rafrænu formi.

Það verða jólahlaðborð, jólaböll, jólafundir, jólaföndur, jólaguðsþjónustur og alls konar jóla, jóla, í bland við hversdagslegri viðburði alveg fram á þrettándann. Hlekkur á dagskrána er hér fyrir neðan til vistunar eða prentunar. Einnig má nálgast útprentuð eintök á bæjarskrifstofu, Bókasafni Hveragerðisbæjar í Sunnumörk og Sundlauginni Laugaskarði.

Að vanda hefst aðventan á því að við kveikjum ljósin á jólatrénu í Lystigarðinum en það er heldur betur búið að fegra hann og skreyta undanfarna daga svo hann mun skarta sínu fegursta þegar tendrað verður á stóra jólatrénu sunnudaginn 1. desember kl. 17. Á undan bjóða skátarnir upp á heitt kakó í skátaheimilinu og um kvöldið verður aðventukvöld í
Hveragerðiskirkju kl. 20.

Það er svo yndislegt við þennan árstíma að þrátt fyrir að daginn sé að stytta þá er svo margt sem lýsir upp skammdegið á ýmsa vegu. Öll jólaljósin og skreytingarnar lýsa upp bæinn og heimilin en hinir fjölmörgu viðburðir og mannamót lýsa upp huga okkar og hjörtu. Allt þetta verður til þess að við finnum minna fyrir myrkrinu heldur gleðjumst og fögnum hvert með öðru í tilhlökkun og gleði jólanna.

Viðburðadagskráin er eflaust fjarri því að vera tæmandi þrátt fyrir að hún sé þéttskipuð en vonandi nær hún yfir flesta þá viðburði sem boðið er upp á í bænum. Það er þó alveg ljóst að engum þarf að leiðast í Hveragerði yfir hátíðarnar.

Loks minni ég á að Hveragerðisbær er á Instagram, hveragerdi.is. Þið megið mjög gjarnan fylgja bænum og merkja hann í færslunum ykkar þar sem við á.

Gleðilega aðventu!

Sigríður Hjálmarsdóttir
menningar-, atvinnu- og markaðsfulltrúi Hveragerðisbæjar

Jól í bæ – viðburðadagskrá 2024

Fyrri greinSannkallaðir stórtónleikar í Skálholti
Næsta greinUngmennafélagið ÁS í hóp fyrirmyndarfélaga ÍSÍ