Af hverju að kjósa Samfylkinguna?

Nú er ekki nema vika í að Íslendingar ganga til kosninga. Samfylkingin býður fram hér í Suðurkjördæmi öflugan hóp af fólki sem býður kjósendum uppá nýtt upphaf með jafnaðarstefnuna í farteskinu.

Fái Samfylkingin skýrt umboð frá kjósendum mun fólk fljótlega verða vart við breytingar. Jafnaðarstefnan á jafn mikið erindi á landsbyggðinni eins og á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju? Jú, vegna þess að á landsbyggðinni eru til staðar áskoranir sem stefna Samfylkingarinnar mun hafa jákvæð áhrif á. Útgangspunkturinn er að tryggja jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun, og annarri félagslegri þjónustu óháð búsetu. Hér á Suðurlandi er það sérstaklega mikilvægt þar sem þjónustan er oft á tíðum ekki eins aðgengileg eins og á höfuðborgarsvæðinu. Úti á landsbyggðinni eru oft þéttari og nánari tengsl á milli fólks og því oftar en ekki meiri áhugi hjá fólki að stuðla að velferð samborgara sinna.

Stefna jafnaðarmanna nýtist við að tryggja að félagsleg úrræði og að stuðningur sé til staðar fyrir þá sem þurfa á slíku að halda. Samfylkingin vill að allir hafi jafnan aðgang að menntun, hluti af því er að tryggja húsnæðismál nemenda úr dreifbýlinu sem stunda nám í Fjölbrautaskóla Suðurlands til framtíðar.

Af hverju vilja bændur ekki skoða ESB aðild?
Samfylkingin er Evrópusinnaður stjórnmálaflokkur sem vill leyfa þjóðinni að kjósa um aðild að ESB. Bændur landsins hafa verið mótfallnir inngöngu fram að þessu og hafa Bændasamtök Íslands um árabil tekið afstöðu gegn aðild.

Vafalaust eru bæði kostir og gallar fyrir bændur að Ísland gerist aðili að ESB. Það er mín skoðun að innganga myndi hafa margvísleg jákvæð áhrif á íslenska bændur. Aukin markaðsaðgangur, tollfrjáls viðskipti, aukið samstarf og þekkingarskipti. Aukinn fjárhagsstuðningur sem myndi opna á beina styrki og lán frá ESB sem gætu stuðlað að nýsköpun, sjálfbærum landbúnaði og bættum framleiðsluaðferðum.

Það er byr með framboði jafnaðarfólks fyrir þessar kosningar. Samfylkingin gerir kröfu um árangur, kjósendur eiga að geta treyst því sem stjórnmálaflokkar segja og orð þeirra og loforð endurspeglist síðan í verkum þeirra. Risastórar áskoranir blasa við á Íslandi enn ekki stærri en svo að flokkur jafnaðarfólks er tilbúin til verka.

Ég kýs Samfylkingunna vegna þess að meginstefnan snýst um jöfnuð, sjálfbærni, frelsi, og samábyrgð. Það er grundvallarstef jafnaðarfólks að hverjum og einum einstakling verði tryggð skilyrði til þess að rækta sína eigin hæfileika og nýta í þágu samfélagsins og komandi kynslóða.

Eggert Valur Guðmundsson,
oddviti Rangárþings ytra

Fyrri greinRáðherrann
Næsta greinÁrmenningar áræðnari í lokin