Það er kannski hálf vandræðalegt að fagna því hvað síðustu vikur hafi verið snjóléttar á Suðurlandi og manni líði á köflum eins og vorið sé að koma. Ekki vegna þess að veðrið sé eitthvað betra heldur þarf sveitarfélagið ekki borga eins mikið í snjómokstur. Útgjöld sem við erum ekki almennt að velta fyrir okkur ef önnur þjónusta er í lagi, svo sem leikskólar, að sundlaugin sé opin og sorpið sé tekið reglulega.
Auknar tekjur og betri rekstur lækka álögur
Umhverfisnefnd Árborgar kynnti nýlega nýja skýrslu um söfnun úrgangs árið 2024 sem sýndi verulega jákvæða þróun fyrir okkur íbúa. Flokkun á úrgangi frá heimilum jókst um 12 prósent milli ára sem eru frábærar fréttir en flokkunarkerfið hefur tekið talsverðum breytingum á undanförnum tveimur árum. Í heildina voru tekin 2.200 tonn frá heimilum árið 2024 og 62 tonn af grenndarstöðvum þar sem við flokkum málma, gler og textíl.
Þessi árangur okkar íbúa við flokkun er að skila árangri og hann sést best á greiðslum frá Úrvinnslusjóði. Á milli ára hafa þær aukist um tæplega 20 milljónir. Árið 2023 fékk sveitarfélagið greitt um 37,5 milljónir en árið 2024 um 56,5 milljónir. Slíkur árangur skilar sér í lægri gjöldum fyrir meðhöndlun úrgangs líkt og kom fram í fjárhagsáætlun 2025. Þar kom m.a. fram að gjöld fyrir tvískipta spartunnu lækkuðu og flest önnur stóðu í stað milli ára. Það er stefnan að halda áfram að bæta reksturinn á þessu sviði til að halda gjöldum í lágmarki.
Nýtt fyrirkomulag á leikskólum gengið vel
Árið 2024 hófst tilraunaverkefni í leikskólum Árborgar sem var ætlað að gefa foreldrum aukinn sveigjanleika við skráningu vistunartíma og þannig lækka gjöld, ásamt því að bæta starfsumhverfi leikskólakennara. Verkefnið hefur gengið með ágætum og sýna niðurstöður könnunar að bæði foreldrar og starfsmenn eru almennt ánægðir með breytingarnar líkt og sjá má á myndum 1 og 2.
Það er mikilvægt að aðlaga starfið og umgjörðina að breytingum samfélagsins. Bæjarstjórn hefur því staðfest tillögur fræðslu- og frístundanefndar að skráningardagar haldist í dymbilviku, vetrar- og starfsdögum, lokað sé milli jóla og nýárs og skráning sé eftir kl. 14:00 á föstudögum. Þorláksmessa mun síðan bætast við skráningardaga á næsta leikskólaári.
Samhliða þessari breytingu er stefnt að áframhaldi viðbótarniðurgreiðslna til foreldra barna sem nýta sér þjónustu dagforeldra. Þar er um að ræða áframhald niðurgreiðslu fyrir börn yngri en 18 mánaða og síðan viðbótargreiðslu fyrir börn, 18 mánaða og eldri sem hafa gilda umsókn um leikskólapláss. Foreldrar barna 18 mánaða og eldri greiða því sambærilegt verð hjá dagforeldri og fyrir almennt leikskólapláss hjá sveitarfélaginu. Þjónusta dagforeldra er mikilvægur hlekkur í heildarþjónustu við börn og foreldra í samfélaginu og vill Sveitarfélagið Árborg styðja við þessa öflugu starfsemi.
Menningin blómstrar
Af nógu er að taka í menningunni. Leikfélag Selfoss hefur verið að sýna leikritið Átta konur og eru lokasýningar 4. og 5. apríl nk. Leikfélag Eyrarbakka frumsýnir síðan verkið Stöndum saman 10. apríl nk. á Rauða húsinu, Eyrarbakka. Héraðsskjalasafn Árnesinga býður upp á námskeið í grúski dagana 7. og 8. apríl í húsnæði Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka og bæjar- og menningarhátíðin Vor í Árborg verður haldin dagana 25. – 27. apríl. Þetta ásamt viðburðum á bókasafninu, Sviðinu og fleiri stöðum sýnir að það er af nægu að taka í sveitarfélaginu okkar á næstu vikum í aðdraganda páskahátíðar. Hafið það sem allra best og gleymum ekki heldur að njóta dagsins í dag.
Bragi Bjarnason,
bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg