Mikið hefur verið rætt um það undanfarið hvort þörf sé á stjórnlagaþingi.
Fólk hefur að sjálfsögðu mismunandi skoðanir á því eins og gengur og gerist. Mín skoðun er sú að full þörf sé á stjórnlagaþingi vegna þess að ég er viss um að það sé góð leið til þess að ná fram sátt og sameiningu í þjóðfélaginu. Það er þörf á því að við vinnum saman en ekki hver í sínu horni, við þurfum að sameinast um það hvernig þjóðfélag við viljum byggja og hvernig þjóðfélag við viljum að afkomendur okkar erfi. Ég hef þá trú að stjórnlagaþingið sé réttur grundvöllur til þess að byrja þá vinnu.
Hvert er hlutverk stjórnlagaþingsins og hvað er stjórnarskrá? Hlutverk stjórnlagaþingsins er að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Stjórnlagaþingið mun undirbúa frumvarp sem felur í sér endurbætta stjórnarskrá. Stjórnlagaþingið er góð leið til þess að fá fólk til þess að vinna saman og gera drög að góðum samfélagssamning sem allir geta verið sáttir með og stoltir af. Stjórnarskráin er í raun sáttmáli á milli þegna Íslands og myndar umgjörð um það þjóðfélag sem við viljum byggja. Þess vegna er mikilvægt að það sé sátt um þann sáttmála og því verður að vanda vel til verka.
Vegna framboðs míns til stjórnlagaþings hef ég sett saman stefnuskrá þar sem ég hef sett fram áherslur mínar varðandi það sem ég vil breyta og bæta. Eitt af því sem ég vil fá inn í stjórnarskrá er svokallað stjórnlagaráð, með því vil ég tryggja þrískiptingu valdsins. Ákvörðunarvald löggjafans á að vera sem minnst framselt til dómstóla. Það er ekki til þess að auka virðingu Alþingis þegar lög sem þingið hefur samþykkt hafa ítrekað stangast á við stjórnarskrá að mati dómstóla. Ég tel því nauðsynlegt að setja á fót stjórnlagaráð og styrkja þannig Alþingi sem löggjafarvald.
Stjórnlagaráðið yrði faglegt ráð skipað sérfræðingum og tilgangur þess væri að veita ráðgjöf varðandi það hvort lagafrumvörp stangist á við stjórnarskrá. Ég tel heppilegt að stjórnlagaráðið yrði samansett af hæstar- og héraðsdómurum, löglærðum mönnum og kjörnum fulltrúum frá Alþingi sem þó væru ekki sjálfir þingmenn.
Hugmyndir hafa verið uppi um að það ætti að vera hægt að vísa lagafrumvörpum til Hæstaréttar ef menn telja að þau stangist á við stjórnarskrá. Fyrir mér er það ekki vænlegt vegna þess að álag á Hæstarétt myndi aukast all verulega og því tel ég stjórnlagaráð gríðarlega mikilvægt, auk þess sem það myndi einnig tryggja þrískiptingu valdsins.
Höfundur er háskólanemi og í framboði til stjórnlagaþings.