Áhyggjulaust ævikvöld

Ég heimsótti eldra fólk í Mörkinni um daginn. Það var einstaklega skemmtilegt þó ég hefði gjarnan viljað eyða meiri tíma í að spjalla við fólkið í stað þess að sitja við pallborð.

Þarna var fyrirmyndaraðstaða til hverslags félagsstarfs. Það var verið að spila bridge í einu herberginu (þrjú hjörtu) og mig klæjaði í fingurna til að setjast hjá þeim og spila.

Mér þykir mjög vænt um eldra fólk. Og ég verð að vera hreinskilin með það að mér finnst við Íslendingar ekki sinna þeim nægilega vel. Þetta er kynslóðin sem vann hörðum höndum, skapaði verðmæti  og gerði okkur kleift að mennta okkur og að lifa við velmegun. Eldra fólkið okkar á svo sannarlega skilið áhyggjulaust ævikvöld.

Amma og afi
Ég var hálf alin upp af ömmu og afa á Hornafirði, pabbi alltaf úti á sjó og mamma að vinna. Það var einhver viska og stóísk ró sem þau bjuggu yfir. Við vorum heppin, þau lifðu lengi og voru alveg klár í kollinum þó líkaminn hafi hrörnað. Ég gleymi því aldrei þegar þau voru nánast skikkuð til þess að fara á hjúkrunarheimili. Afi var líklega 97 ára og amma 95. Þau höfðu notið heimaþjónustu og heimahjúkrunar (þegar þurfti) frá hinu opinbera um margra ára skeið. En þetta reyndist okkur öllum afar þungbært, ömmu, afa og okkur í fjölskyldunni.

Ástand hjúkrunarheimila
Starfsfólkið á hjúkrunarheimilinu var og er yndislegt, gerði sitt besta til að öllum liði vel en hjúkrunarheimili fannst mér rangnefni. Það var lítið heimilislegt við hjúkrunarheimilið. Það líkist mun meira sjúkrahúsi, allt hvítt og sterílt. Þau fengu ekki að vera í sama herbergi. Það leið heilt ár uns þau fengu herbergi til að búa í saman. Gamla elliheimilið var mun heimilislegra. Það átti nafnbótina heimili skilið. Það gerir hjúkrunarheimið ekki. En nóg af ömmu og afa, blessuð sé minning þeirra og aftur að fundinum í Mörkinni. Öll framboðin virtust sammála um að gera betur við eldra fólk.

Loforðaflaumurinn
Það vildu allir styrkja heimaþjónustu við eldri borgara og flestir töluðu um að semja við ríkið um svipaða tilraun og var gerð í Reykjavík um að samþætta heimahjúkrun við heimaþjónustu.

Flestir ræddu það sjálfsagða mál að öll þjónusta við eldra fólk miðist við þarfir þeirra en ekki að þörfum sveitarfélagsins.

Allir töluðu um að efla fjölbreytt búsetuúrræði eldra fólks, t.d. með fjölgun lífsgæðakjarna þar sem heimili og þjónusta eru tengd saman. Flest framboðin vildu verja sjálfstæða búsetu í einkarými. Okkur hjá Áfram Árborg finnst það ekki boðlegt að bjóða fólki upp á tví- og þrímenningsherbergi, að búa með ókunnugum. Það er auðvitað sjálfsagt að bjóða eldra fólki upp á að velja úr fjölbreyttum búsetuúrræðum því eldra fólk er alveg jafn mismunandi og við sem yngri erum. Við hjá Áfram Árborg viljum einnig að hreppaflutningar eldra fólks verði stöðvaðir. Fólk á skilið að verja ævikvöldinu á ókunnum stað með ókunnu fólki. Flestir voru líka sammála stefnumáli okkar um að pörum skuli aldrei stíað í sundur heldur gefinn kostur á að búa saman til æviloka.

Gerum þá eitthvað meira en að tala
Það sem kom mér á óvart var þessi samhljómur allra framboðanna. Ef samhljómurinn er svona mikill, og stjórnmálafólk meinar það sem það segir, þá ætti að vera löngu búið að lagfæra það sem er á könnu sveitarfélagsins.

En við bíðum. Og bíðum. Og bíðum.

Það er ekki eftir neinu að bíða, Godot kemur ekki.

Ráðumst í þetta, því framtíðin er núna!

Álfheiður Eymarsdóttir
Oddviti Áfram Árborgar

Fyrri greinKæru 10.928 íbúar í Árborg: Kjósum með „Nýju Árborg“ í dag!
Næsta greinBeata ráðin fjölmenningarfulltrúi