Ákvörðun Póstsins og störf á landsbyggðinni

Það er gömul saga og ný að opinberar stofnanir og opinber hlutafélög færa störf af landsbyggðinni eða fækka störfum á þeim svæðum. Árlega kemur það fyrir og skilur starfsmenn eftir með sárt ennið og neyðir það í erfiða atvinnuleit, enda hægara sagt en gert að finna vinnu við hæfi í fámennari sveitarfélögum landsins.

Nýtt dæmi um þessa sögu má finna á Suðurlandi þar sem Pósturinn hefur ákveðið að loka pósthúsunum á Hellu og Hvolsvelli. Þetta leiðir til meðfylgjandi atvinnumissis og þjónustuskerðingar. Þetta gerir stöðu íbúanna á svæðinu erfiðari og skiljanlega eru þeir ósáttir við þessa furðulegu ákvörðun.

Íþyngjandi ákvörðun Póstsins
Í viðtali við Vísi.is bendir sveitarstjóri Rangárþings eystra, Lilja Einarsdóttir , réttilega á þá staðreynd að í tuttugu þúsund manna sveitarfélagi þá eru störf á vegum Póstsins um tuttugu. Á höfuðborgarsvæðinu, sem rúmar um tvö hundruð þúsund íbúa, eru störfin um tvö hundruð og fimmtíu. Ef við horfum sérstaklega til Hvolsvallar þá er um að ræða fækkun rúmlega tveggja stöðugilda í 1300 manna vinnandi samfélagi. Með þessum áformum Póstsins mun störfunum fækka enn meira. Samhliða þessum lokunum verður dregið úr þjónustu Póstsins. Þetta er íþyngjandi ákvörðun opinbers félags sem hefur mikil áhrif á íbúa svæðisins.

Að halda öllu landinu í byggð
Þessi afleidda ákvörðun Póstsins er bara einn liður af stóru myndinni. Ein stærsta ástæða þess að einstaklingar flytja af landsbyggðinni er skortur á starfsmöguleikum. Í stjórnarsáttmálanum kemur skýrt fram að tryggja skuli jafnvægi byggða. Það er gert m.a. með því að tryggja ákveðið hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni, eins og fram kemur í stjórnarsáttmálanum.

Þeir sem búa eða hafa búið á landsbyggðinni hafa líklega allir orðnir var við þann fjölda opinberra starfa sem hafa verið flutt, þá aðallega á höfuðborgarsvæðið, ásamt þeim áhrifum sem það hefur á viðkomandi sveitarfélag. Mikilvægt er að sporna við þeirri þróun sem fyrst og tryggja starfsmöguleika á landsbyggðinni. Að tryggja núverandi störf ásamt því að skapa ný og fjölbreytt atvinnutækifæri þvert yfir landið er grundvallaratriði ef við viljum halda öllu landinu í byggð.

Hvað getum við gert?
Varðandi ákvörðun Póstsins þá er það eina í stöðunni að hvetja til þess að hann endurskoði sína ákvörðun. Vissulega er hún tekin með hagræðingu að markmiði, en stundum kostar það að halda störfum á landsbyggðinni ásamt þeirri þjónustu sem við viljum tryggja þvert yfir landið.

Ef við horfum hins vegar á stóru myndina þá eru margar leiðir til að tryggja störf á landsbyggðinni. Ein leið væri að flytja störf af höfuðborgarsvæðinu yfir á landsbyggðina. Í dag eru fjölmörg opinber störf á höfuðborgarsvæðinu sem ættu meira erindi á landsbyggðinni samhengisins vegna. Eitt dæmi um það er að höfuðstöðvar RARIK ohf. eru í Reykjavík á meðan öll starfsemi félagsins á sér stað á landsbyggðinni. Á síðasta kjörtímabili lagði þingflokkur Framsóknar fram þingsályktunartillögu um að stefnt væri að flutning höfuðstöðva félagsins á landsbyggðina.

Önnur leið er að uppfylla markmið ríkisstjórnarinnar um að öll störf verði auglýst án staðsetningar nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Þetta er eitthvað sem Framsókn hefur lengi talað fyrir og steig fyrstu skrefin í á síðasta kjörtímabili. Nú í dag hafa allir áttað sig á verðmæti verkefnisins og keppast við að lofa því og koma því á laggirnar.

Í stóru myndinni er það ljóst að við þurfum að vernda þau störf sem finnast nú þegar á landsbyggðinni. Einnig er mikilvægt að við tryggjum ný og fjölbreytt störf þvert yfir landið. Með því vinnum við í þágu byggðasjónarmiða og komumst nær því að uppfylla þau markmið sem við höfum nú þegar sett okkur um að halda öllu landinu í byggð.

Hafdis Hrönn Hafsteinsdóttir
Þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Fyrri greinSeiglan færði Selfyssingum mikilvægt stig
Næsta greinÁtta kærðir fyrir hraðakstur