Á laugardagsmorgni í febrúar hittist þessi hópur hjá Laufeyju ljósmyndara í Studío Stund á Selfossi. Tilefnið var að gera eitthvað skemmtilegt til að vekja athygli á alþjóðlega degi Downs heilkennis sem er í dag, 21. mars.
Hugmyndin var að ná saman öllum einstaklingum með Downs heilkenni sem búa í Árnessýslu. Eftir því sem ég best veit þá eru þau níu þannig að þátttakan var mjög góð.
Tilgangurinn með birtingu myndarinnar er að vekja athygli á Downs heilkenninu, sýna að einstaklingar með heilkennið eru ólíkir, þrátt fyrir að vera með lík útlitseinkenni og takta. Þessi 9 manna hópur er á aldrinum 4 til 68 ára Þau stunda nám í almennum leikskóla og grunnskóla, hafa verið í sérdeild á grunnskólastigi og útskrifast af starfsbraut Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þau vinna á vernduðum vinnustöðum og sinna annarri atvinnu með stuðningi.
Þau búa heima hjá foreldrum sínum, í sjálfstæðri búsetu með stuðningi og á sambýli. Þau eiga heima á Selfossi, í Flóahreppi, Hrunamannahreppi og Grímsnes og Grafningshreppi. Þau stunda íþróttir og aðrar tómstundir, sækja ýmiskonar námskeið og hafa mörg og ólík áhugamál, eru semsagt einsog við hin nema þau eru ríkari af litningum.
Þetta eru þau Nói, Ævar, Katla Sif, Unnur, Erla , Berglind, Margrét, Rúnar og Sigurður sem komst ekki í myndatökuna, ólíkir einstaklingar sem eiga það sameiginlegt að vera með Downs heilkenni og búa í Árnessýslu.
Ég vil óska öllum sem eru með Downs heilkenni til hamingju með daginn, tilveran væri fátæklegri án ykkar.
Marta Esther Hjaltadóttir