Ég stökk upp í stúkunni á Selfossvelli og hrópaði í kapp við fjölda áhorfenda þegar við sáum kringluna lenda. Eitt kast sem tekur nokkrar sekúndur, á einu augnabliki lendir kringlan, Ólympíumeistarinn hafði sett vallarmet, bætt met þjálfarans Vésteins, kastað lengra en á Ólympíuleikunum sjálfum!
Sólbökuð andlitin gátu ekki annað en brosað. Hvernig var annað hægt. Við hlið mér sat sjálfur forseti Íslands og fagnaði í kapp við Völu Flosadóttur, Jón Arnar Magnússon og fjölda annarra Ólympíufara. Sigurbjörn Árni Arngrímsson öskraði sig hásan svo heyrðist heim í stofu um allt land, í frábærri útsendingu RÚV.
Þó ég lenti aftur flatur, eins og kringlan, í sætinu gat ég ekki hætt að gleðjast yfir stundinni. Að fá að upplifa þetta! Að upplifa Árborg sem heimsborg íþróttanna þessa stórkostlegu stund í maí.
Við höfum séð stelpur og stráka frá Selfossi ná mögnuðum árangri í íþróttum í gegnum árin, hvort sem það er knattspyrna, handknattleikur, frjálsar eða fleira. Ótal sögur um afrek lifa. Á bakvið þau afrek, rétt eins og augnablikið á vellinum er svo ótal margt, sem við gleymum stundum að hugsa til eða þakka.
Á bakvið afrekin stór og smá stendur sveitarfélag sem hefur sýnt stuðning í verki, uppbyggingu mannvirkja og innviða sem heimsborgir gætu verið stoltar af. Á bakvið íþróttastarfið stendur félag sem þennan dag, líkt og undanfarna áratugi, er borið áfram af mögnuðu fólki sem hlífir sér hvergi til þess að tryggja að íþróttafólkið fái að eflast og njóta sín á stóra sviðinu.
Á laugardaginn byggðum við á þessu baklandi. Stundin var síðan römmuð inn, annars vegar af fánaborgum frábærra samstarfsaðila, m.a. úr héraði og hins vegar fjölda fólks sem flykktist á völlinn til fylgjast með Íslands og heimsins fremstu í frjálsum eiga frábært mót!
Takk fyrir okkur og til hamingju þið heimsborgarar með laugardaginn! Selfoss Classic – 75 ára afmælismót FRÍ, var algjör klassík, frá fyrstu stundu! Þökk sé ykkur!
Með íþróttakveðju,
Freyr Ólafsson
Formaður FRÍ