Vissuð þið að frá því í janúar 2021 hefur verið frítt í Árborgarstrætó fyrir alla aldurshópa og því geta íbúar Árborgar nýtt sér strætóinn án endurgjalds? Ferðirnar eru tíu á virkum dögum og fimm um helgar þar sem ekið er bæði laugardaga og sunnudaga. Strætó er ekki einungis fyrir ungmenni án bílprófs heldur getur fullorðna fólkið einnig nýtt sér þessar ferðir. Árborgarstrætóinn nýtist einnig sem frístundaakstur á milli þéttbýliskjarna í sveitarfélaginu, þó vissulega væri hægt að útfæra þann akstur á heppilegri máta sem er efni í annan pistil.
Þetta er frábært fyrirkomulag hjá Árborg að bjóða upp á ókeypis strætóferðir en vissulega mættu fleiri vera duglegri að nýta sér þennan ferðamáta og þar á meðal undirritaðar. Almenningssamgöngur eru umhverfisvænni ferðamáti heldur en einkabíllinn eins og flestum er kunnugt. Betur má ef duga skal og stundum er þörf á að bæta aðbúnað. Mikilvægt er að hafa notendur þjónustunnar með í ráðum og hlusta á ábendingar.
Ýmislegt getur ýtt undir að fólk notfæri sér strætóferðir í auknum mæli og þar hafa hin svokölluðu strætóskýli verið vinsæl hvatning. Þess má geta að ekkert einasta strætóskýli er á Stokkseyri og erum við undirritaðar sannfærðar um að það gæti verið mikilvæg hvatning fyrir alla aðila til að nýta sér strætó. Það er ekki beint heillandi tilhugsun að standa úti í stórhríð að bíða eftir fari en tilhugsunin um að bíða í góðu skýli í skjóli frá veðri og vindum er strax skárri. Síðast þegar við vissum þá eru strætóskýli í öllum hinum þéttbýliskjörnunum í Árborg og því setjum við stórt spurningarmerki við hvers vegna það er ekki eitt einasta skýli hér á Stokkseyri?
Við skorum á sveitarfélagið að bæta úr þessum málum og setja upp a.m.k. eitt strætóskýli á Stokkseyri!
Herdís Sif Ásmundsdóttir og
Anna Vala Ólafsdóttir
Íbúar á Stokkseyri.