Mikið hefur verið rætt og ritað um niðurstöður pisa könnunarinnar í fjölmiðlum að undanförnu.
Pisa könnun er framkvæmd á þriggja ára fresti í öllum aðildarlöndum OECD og er athugun á hæfni nemenda í ýmsum námsgreinum. Af niðurstöðum könnunarinnar hefur hvað mest verið verið fjallað um að um 30% íslenskra drengja geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Einnig hefur drengjunum okkar farið aftur miðað við fyrri kannanir í stærðfræði ásamt því að frammistaða íslenskra nemenda í náttúrufræði er sú lakasta á Norðurlöndunum. Þessar niðurstöður eru að sjálfsögðu áhyggjuefni og ég vil sjá að í Svf. Árborg setjum við okkur mælanleg markmið til þess að ná betri árangri.
En þrátt fyrir þetta voru líka ýmsar jákvæðar niðurstöður sem við getum byggt á til framtíðar. Munur á frammistöðu nemenda milli hinna fjölmörgu skóla er hvergi minni en á Íslandi. Einnig hefur skólabragurinn og viðhorf íslenskra nemenda til náms batnað verulega frá því sem áður. Traust nemenda á kennurum sínum hefur aukist mikið og íslenskum grunnskólanemendum líður almennt betur í skólanum en jafnöldrum þeirra í öðrum OECD ríkjum.
Hvernig getum við orðið betri?
Þegar er ýmis vinna í gangi í grunnskólum sveitarfélagsins varðandi það að bæta lestur og lesskilning. Við eigum áfram að leggja höfuð áherslu á að setja okkur metnaðarfull markmið um að bæta þennan þátt í námi barnanna okkar. Og þar þurfa margir að koma að málum. Það þarf allt samfélagið að standa að og með skólunum okkar. Nemendur, starfsfólk, foreldrar, skólaráð, foreldrafélög og fræðslunefnd, það getur enginn án hins verið þegar kemur að því að vinna að bættum árangri.
Mikilvægur grunnur að lestrarnámi barna er lagður á fyrsta skólastiginu, í leikskólanum. Við þurfum að vinna að því að fjölga leikskólakennurum í leikskólum sveitarfélagsins þvi þannig tryggjum við best að markvisst lestrarnám hefjist strax í leikskóla.
Eitt af því sem ég tel að geti orðið til þess að bæta árangur barnanna okkar er að Svf. Árborg bjóði foreldrum nýrra grunnskólanemenda upp á námskeið til þess að styrkja þá hlutverki sínu sem foreldra skólabarna. Með hliðsjón af þessu lagði ég fram eftirfarandi tillögu á síðasta fundi fræðslunefndar:
„Undirrituð leggur til að foreldrum nýrra grunnskólanemenda í Svf. Árborg verði boðið upp á námskeið við skólabyrjun á haustin þar sem áhersla er lögð á hvernig foreldrar geti sem best stutt við skólagöngu barnanna sinna.“
Það sem foreldrar gera heima, sem góðir uppalendur, hefur merkjanleg áhrif á námsárangur barna. Rannsóknir hafa sýnt skýr tengsl milli foreldraþátttöku, betri hegðunar barna, ástundunar í námi og námsárangurs. Í nýlegum rannsóknum koma fram sterkar og vaxandi vísbendingar um að fjölskyldur geti eflt árangur barna sinna í námi m.a. með því að hvetja börn sín, sýna náminu áhuga, sýna gott fordæmi og eiga gott samstarf við skólann. Með því að bjóða foreldrum upp á slíkt námskeið tel ég að við séum að auka möguleika á bættum námsárangri og betri líðan barnanna okkar.
Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista í Árborg.