Jöfnuður er hverju samfélagi mikilvægur. Við eigum alltaf að leggja ofuráherslu á að standa vörð um velferðina og stuðla að jöfnuði.
En jöfnuður er ekki bara mikilvægt réttlætismál heldur er hann beinlínis æskilegur vegna þess að hann stuðlar að betra samfélagi. Jöfnuður stuðlar að auknum félagsauði sem skilar sér í öruggari samfélagi öllum til heilla.
Jöfnuður er betri fyrir alla!
Fjölmargar samfélagsrannsóknir hafa sýnt fram á að samfélög, þar sem ójöfnuður er mikill, eigi við erfiðari félagsleg vandamál að etja en þau samfélög sem einkennast af meiri jöfnuði. Samfélög sem búa við mikinn ójöfnuð eru líklegri til þess að búa við margs konar heilsufarsleg og félagsleg vandamál. Einnig hefur verið sýnt fram á að minni samheldni og samstaða er meðal almennings þar sem ójöfnuður ríkir. Aftur á móti njóta íbúar þeirra samfélaga, þar sem meiri jöfnuður ríkir, meiri velsældar en íbúar njóta almennt í löndum sem einkennast af ójöfnuði. Í jafnaðarsamfélögum eru allir íbúar líklegri til þess að lifa lengur, taka meiri þátt í samfélaginu, ofbeldi er sjaldgæfara sem og önnur félagsleg vandamál.
Jöfnuður og velferð
Ísland er og á að vera velferðarsamfélag. Velferðarstefna jafnaðarmanna byggir á því að jafna lífskjör og tækifæri fólks. Við eigum að virða fjölbreytileika mannlífsins, berjast fyrir mannréttindum allra og almennri velferð.
Góð velferðarþjónusta fyrir alla og jöfnuður eru grunnurinn að réttlátu samfélagi sem skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Með því að tryggja öllum aðgang að heilsugæslu, menntun og mikilvægri félagsþjónustu er vegið á móti áhrifum stéttaskiptingar og fleiri hafa tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Allir einstaklingar eiga að hafa jöfn tækifæri til þess að fá eftirsóknarverð hlutverk í samfélaginu og fá aðstoð til þess í samræmi við þarfir sínar.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur baráttan gegn auknum ójöfnuði skilað góðum árangri. Ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu er um helmingi minni nú en árið 2007 þegar hann varð mestur að fjármagnstekjum meðtöldum. Þá dreifðust tekjur Íslendinga jafnar árið 2011 en þær hafa gert síðan mælingar Hagstofunnar hófust árið 2004. Bilið milli tekjuhópa hefur einnig minnkað verulega frá árinu 2009. Hafa ber í huga að þessi árangur næst á sama tíma og að hér á landi varð fimmti mesti samdráttur þjóðarframleiðslu á Vesturlöndum (á árunum 2008-2010) og meðalrýrnun kaupmáttar ráðstöfunartekna varð með því allra mesta sem gerðist í Evrópu, einkum vegna gengisfalls krónunnar.
Ýmislegt hefur verið gert í því skyni að auka jöfnuð á kjörtímabilinu eins og með því að hækka barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur.
Samfélag jöfnuðar
Ég vil búa í samfélagi þar sem við látum okkur hvert annað varða. Ég vil búa í samfélagi sem einkennist af umburðarlyndi, samkennd og samstöðu. Með því að stuðla að samfélagi jöfnuðar er hægt að bæta félagslega og andlega vellíðan allra í samfélaginu. Ég ætla svo sannarlega að leggja mitt af mörkum í því að byggja upp slíkt samfélag.
Arna Ír Gunnarsdóttir,
skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi