Við erum ekki öll eins, sem betur fer. Við höfum misjafna styrk- og veikleika og okkur hentar ekki öllum að fara eftir sama beina veginum.
Í starfi mínu sem félagsráðgjafi hitti ég gjarnan ungmenni sem hafa hætt námi í framhaldsskóla vegna þess að þau hafa ekki fundið sig í náminu. Það er ansi erfitt ef ungmenni hættir námi og hefur ekki að neinu öðru að hverfa. Menn missa fljótt taktinn þegar engin er rútínan. Frumkvæðið verður lítið og fátt um framkvæmdir. Þetta dregur mátt úr fólki, sjálfsmyndin bíður hnekki og á ótrúlega skömmum tíma tekur vonleysið völdin.
Á Íslandi höfum við verið að stríða við meira brottfall úr framhaldsskólum heldur en aðrar þjóðir. Ný greining á þjóðhagslegum áhrifum brotthvarfs úr framhaldsskólum á Íslandi bendir til að þjóðfélagslegur kostnaður þess nemi 14 milljónum króna á hvern nemanda sem hættir námi, eða 52 milljörðum króna fyrir nemendahópinn í heild miðað við að tæplega 20% nemenda falli varanlega frá námi. Það er gríðarleg sóun. Hér verðum við að gera betur því velferð hvers einasta ungmennis skiptir okkur máli!
Markvisst samstarf FSu og sveitarfélaganna á Suðurlandi
Þrátt fyrir að málefni framhaldsskólanna séu á forræði ríkisins þá getum við hafið markvisst samstarf sveitarfélaga á Suðurlandi og FSu til þess að draga úr brottfalli nemenda. Það er mín skoðun að ungmenni á aldrinum 16-18 ára eigi að fá þjónustu og ráðgjöf hjá fagfólki skólaþjónusta sveitarfélaganna ef hin hefðbundnu námstilboð henta ekki.
Ég sé fyrir mér að skólaþjónustur í samstarfi við náms- og starfsráðgjafa í FSu búi til einstaklingsbundnar námsáætlanir í kringum hvern og einn nemanda sem finnur sig ekki í náminu. Slíkar áætlanir geta t.d. falið í sér nám á vinnustað, blöndu af námi á vinnustað og bóknámi eða aðrar sveigjanlegar námsleiðir. Á Norðurlöndunum er hefð fyrir því að fara óhefðbundnari leiðir í námi og ættum við að geta leitað í smiðjur frænda okkar eftir hugmyndum.
Ég tel að með markvissu samstarfi geti sveitarfélögin og FSu aukið samfellu í námi. Við eigum að gefa nemendum í 9. og 10.bekk grunnskóla kost á að hefja einstaklingsbundið list- eða verkgreinanám til þessa að minnka líkur á brotthvarfi og auka vægi slíks náms í samræmi við áhuga nemendanna og menntunarþarfa atvinnulífsins. Ég er sannfærð um það að fjárfesting í ungu fólki skilar sér margfalt tilbaka til sveitarfélaganna.
Klárum verknámshúsið!
Ein meginforsenda þess að geta boðið upp á fjölbreytt og sveigjanlegt nám í framhaldsskóla er að byggingu verknámshúss við FSu verði lokið sem allra fyrst eins og búið var að lofa. Við munum ekki una okkur hvíldar fyrr en því verki er lokið!
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi og skipar 2.sæti á S-lista í Svf. Árborg.