Þrátt fyrir að margt hafi áunnist í jafnréttisbaráttunni eigum við enn töluvert í land til að ná fullkomnu jafnrétti.
Launamunur kynjanna er enn til staðar þrátt fyrir lagasetningu og ýmsar aðgerðir. Það er algerlega óþolandi. Launamunur kynjanna er brot á mannréttindum og eitt af mikilvægustu viðfangsefnum stjórnmálanna. Meðan launamunur kynjanna er til staðar er lítið innihald í fullyrðingum um að jafnréttisbaráttunni sé lokið. Samfylkingin hefur sýnt í verki að við viljum í raun og veru vinna gegn því misrétti sem kynbundinn launamunur er.
Kynjajafnræði í stjórnum fyrirtækja
Á liðnu kjörtímabili ávannst mikilvægt skref í jafnréttisbaráttunni. Þrátt fyrir aukna menntun og þátttöku kvenna í atvinnulífinu, eru fáar konur í stjórnunarstöðum fyrirtækja. Lögin, sem samþykkt voru í tíð núverandi ríkisstjórnar, um að 40% stjórnarmanna fyrirtækja eigi að vera konur eru þegar farin að hafa áhrif og munu hafa mikil áhrif til lengri tíma.
Ef það er eitthvað sem við höfum lært af hruninu þá er það að stjórnir margra íslenskra fyrirtækja voru alltof einsleitar og alltof lítil gagnrýni voru á störf yfirmanna þeirra. Hefðir og venjur voru meira áberandi en fagleg ferli og stjórnirnar voru of gagnrýnislausar. Rannsóknir sýna að aukið jafnvægi kynjanna í stjórnum fyrirtækja leiðir til opnari umræðu, ólíkar skoðanir eru frekar ræddar, vinnubrögðin eru skipulagðari og meira eftirliti er með yfirmönnum fyrirtækjanna.
Rannsóknir hafa einnig sýnt að gæði og styrkur stjórna fyrirtækja eykst við það að stjórnarmeðlimir hafa ólíkan bakgrunn og hæfni. Við höfum ekkert að gera við stjórnir þar sem allir eru með reynslu af sama sviði, úr sama fyrirtækinu og umhverfi þess. Fræðimaður einn hefur bent á að ef að 2 starfsmenn fyrirtækis eru alltaf sammála er öðrum þeirra ofaukið.
Kvenfrelsi
Kvenfrelsi og kynjajafnrétti er ein meginstoða jafnaðarstefnunnar og stefnu Samfylkingarinnar. Kvenfrelsi snýst ekki bara um jafnan rétt, heldur frelsi kvenna til að vera þær sjálfar, þroska hæfileika sína á eigin forsendum og skapa sitt eigið líf. Viðhorf og menning, ekki síst staðalmyndir um kynhlutverk, standa oft í vegi fyrir kvenfrelsi. Baráttan fyrir kvenfrelsi felst því ekki síst í að ræða og uppræta hversdagslega fordóma og berjast gegn niðurlægingu kvenna og kvenfyrirlitingu.
Kvenfrelsisbarátta af þessu tagi mun seint taka enda. Það er með hana eins og það að þrátt fyrir að við tökum rækilega til heima hjá okkur í dag, þurfum við sennilega að gera það aftur eftir viku. Af virðingu við þær konur sem hafa komið okkur á þann stað sem við erum á í dag og fyrir dætur þessa lands, megum við aldrei sofna á verðinum í jafnréttisbaráttunni.
Arna Ír Gunnarsdóttir skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi