Fjölbrautaskóli Suðurlands er eitt af fjöreggjunum okkar hér á Suðurlandi og er allra stærsti vinnustaðurinn á svæðinu.
Í skólanum starfa u.þ.b. 900 nemendur og 100 kennarar sem nú sitja heima og bíða átekta. Það er algerlega óþolandi. Ef ekki er þörf á að berja potta á Austurvelli núna þá veit ég ekki hvað.
Árið 1989 lenti ég í verkfalli framhaldsskólakennara eins og þúsundir annarra framhaldsskólanema á þeim tíma. Ég man vel þá óvissutíma sem við upplifðum. Var önnin ónýt? Fáum við námið metið? Mun ég geta útskrifast? Get ég farið í háskólanám í haust? Get ég farið í háskólann sem ég stefni á erlendis í haust?
Brotthvarf
Verkfall framhaldsskólakennara hefur gríðarlegar afleiðingar á framtíð fjölmargra ungmenna á Íslandi. Mikil hætta er á að hundruðir nemenda flosni frá námi og snúi ekki aftur þegar samningar nást í kjaradeilunni.
Á Íslandi höfum við verið að stríða við meira brottfall úr framhaldsskólum heldur en gengur og gerist hjá öðrum þjóðum. Ný greining á þjóðhagslegum áhrifum brotthvarfs úr framhaldsskólum á Íslandi bendir til að þjóðfélagslegur kostnaður þess nemi 14 milljónum króna á hvern nemanda sem hættir námi, eða 52 milljörðum króna fyrir nemendahópinn í heild miðað við að tæplega 20% nemenda falli varanlega frá námi. Það er gríðarleg sóun og nokkuð sem þjóðin hefur ekki efni á.
Stytting framhaldsskólans sem samningsatriði í kjaradeilu
Ég verð að viðurkenna að það jók ekki á bjartsýni mína um lausn kjaradeilunnar þegar í ljós kom að stytting framhaldsskólanáms ætti að vera samingsatriði. Það er fullkomlega fráleitt að ætla sér að gera flókna kerfisbreytingu á skólakerfi landsins að lausn í kjaradeilu. Það er alþingis að taka ákvörðun um menntastefnuna. Stjórnvöld þurfa að leysa kjaramálin fyrst og setjið svo kerfisbreytinguna í faglegt ferli!
Ég er þeirrar skoðunar að við eigum alltaf að vera að skoða hvernig við getum gert betur í framhaldsskólunum. Þrátt fyrir það þá eigum við ekki að fórna þeim sveigjanleika sem við höfum í dag í kerfinu. Þeir sem velja að útskrifast á skemmri tíma en 4 árum geta allir gert það. En það er jafnframt gríðarlega mikilvægt að þeir sem þurfa lengri tíma fái möguleika til þess að ljúka námi á sínum hraða.
Bætum kjör framhaldsskólakennara
Það er staðreynd að laun á Íslandi eru skammarlega lág miðað við það sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Það er ekki boðlegt að ungir framhaldsskólakennarar á Íslandi séu með svo léleg laun að þeir standast ekki greiðslumat til þess að geta keypt sér íbúð eins og dæmin sanna. Ég skora á fjármálaráðherra að semja við framhaldsskólakennara hið snarasta. Með því getur hann sýnt í verki áherslu stjórnvalda á mikilvægi menntunar og um leið afstýrt stórfelldu tjóni fyrir framhaldsskólanemendur og samfélagið allt.
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi S-lista í Svf. Árborg.