F-Flóalistinn er nýtt framboð sem stofnað var til af hópi áhugamanna um sveitarstjórnarmál í Flóahreppi.
Kjörorð listans eru: Samstaða, ráðdeild og framsýni.
Listinn samanstendur af fólki allsstaðar að úr sveitarfélaginu, á ýmsum aldri, sumir innfæddir, aðrir aðfluttir, fólki starfandi við ólíka hluti. Fyrir vikið höfum við ólíka þekkingu, reynslu og sýn á hlutina sem er gott þar sem við ætlum að starfa jafnt fyrir alla með jafnræði og hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Flóahreppur er ungt sveitarfélag rétt að verða 8 ára. Mikil vinna hefur átt sér stað við uppbyggingu varðandi stjórnun og rekstur sveitarfélagsins, byggt hefur verið myndarlega yfir grunnskólann og verið er að stækka leikskólann. Staðið hefur verið undir lögbundnum skyldum við íbúa.
Aðra þjónustu sem þykir sjálfsögð í nútíma samfélagi hefur sveitarfélagið veitt af meiri myndarskap og framsýni en mörg önnur sveitarfélög. Má þar nefna rekstur leikskóla, en þar eru tekin inn börn frá 9 mánaða aldri, snjómokstur og umhverfismiðaða sorphirðu auk annarrar þjónustu.
Íbúar eru almennt sáttir við þá þjónustu sem í boði er og það samfélag sem þeir búa í. Það fríar okkur samt ekki frá þeirri ábyrgð að hafa til stöðugrar skoðunar hvort ekki sé einhversstaðar hægt að gera betur og veita enn betri þjónustu íbúum til hagsbóta.
Eitt af markmiðum Flóalistans er að gæta ráðdeildar og standa vörð um þá þjónustu sem veitt er og bæta við þar sem kostur er.
Stóru verkefnin á næsta kjörtímabili eru: Að klára uppbyggingu leikskólans, gerð aðalskipulags fyrir Flóahrepp auk þess sem áhersla verður lögð á bættar netsamgöngur í sveitarfélaginu, kanna þarf hvaða leiðir eru færar í þeim efnum að undangenginni þarfagreiningu.
Okkar vilji er að Flóahreppur verði áfram eftirsóknarverður fjölskylduvænn búsetukostur, auk þess sem atvinnustarfsemi sem fellur að umhverfi og samfélagi er boðin velkomin. Til að allt þetta takist og samfélagið okkar blómstri þurfum við að eiga stöðugt samtal við íbúa, hlusta, og ekki síður að upplýsa.
Með von um að sem flestir íbúar vilji taka þátt í þessu verkefni með okkur og tala við okkur.
Íbúum Flóahrepps óska ég gleðilegs sumars.
Árni Eiríksson,
skipar 1. sæti á F-Flóalistanum í Flóahreppi.