Ása Berglind: Vel heppnað landsmót í Þorlákshöfn

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá nokkrum Sunnlendingi að Lúðrasveit Þorlákshafnar stóð fyrir Popphorninu, stórtónleikum í íþróttahúsinu þann 5. október síðastliðinn.

Þessir tónleikar voru hluti af landsmóti Sambands íslenskra lúðrasveita en það er haldið á tveggja til þriggja ára fresti og var mótið nú það 21. í röðinni. Á landsmótið komu u.þ.b. 200 lúðrablásarar sem er algjör metþátttaka, en til gamans má geta að síðast þegar L.Þ. hélt landsmót árið 2008 voru þátttakendur 90 talsins.

Blásararnir mættu til leiks seinni part föstudags og æfðu sveitirnar þrjár sem búið var að skipta öllum í fram eftir kvöldi. Æfingar byrjuðu aftur kl. 10 á laugardagsmorgun og var æft allan daginn með hádegis og kaffihléum. Tónleikarnir, sem hófust kl. 19.00, stóðu svo yfir í um tvo og hálfan tíma, fyrir fullum sal af fólki, þar sem öll böndin, bæði Jónas og Naglbítarnir, lúðrasveitirnar, Fjallabræður og Sverrir Bergmann fóru á kostum.

Eftir tónleikana hélt svo allur hópurinn, samtals um 300 mans, út í ráðhúsið okkar þar sem var borðað dýrindis lambakjöt, skemmtiatriði frá öllum lúðrasveitunum flutt og svo var dansleikur með hljómsveitinni Made in sveitin. Einhverjir Þorlákshafnarbúar fengu svo „tónleika“ á milli þrjú og fjögur aðfararnótt sunnudags þegar miðnæturskrúðgangan hélt af stað, en það er hefð sem tilheyrir þessum landsmótum. Skrúðgangan var sérstaklega eftirminnileg þetta skiptið þvi við fengum höfðingjalegar móttökur hjá frú Sigríði Stefánsdóttur, en hún var tilbúin með heitt súkkulaði, pönnukökur, smurðar skonsur og kleinur í þvílíku magni að það fór enginn svangur að sofa þann morguninn! Takk elsku Sirrý okkar.

Við skipulagningu þessa viðburðar leituðum við eftir aðstoð bæði frá aðstandendum okkar í lúðrasveitinni, fyrirtækja og sveitafélagsins. Það er skemmst frá því að segja að það voru allir sem við leituðum til boðnir og búnir til að leggja sitt að mörkum og fyrir það erum við svo óendanlega þakklát. Við getum því miður aldrei talið upp alla hér sem við viljum þakka.

En okkur langar að þakka sérstaklega Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir sinn myndarlega stuðning, Ragga í íþróttahúsinu fyrir að vera svo ótrúlega jákvæður sama hvaða vitleysu við fórum fram á og sérstakar þakkir til allra okkar aðstandenda sem sinntu svo ótal mörgum mikilvægum hlutverkum. Að lokum viljum við líka þakka öllum sem komu á tónleikana og nutu þessarar stundar með okkur.

Það var einróma álit þátttakenda landsmótsins að þessi helgi verði ógleymanleg og því víst að margar góðar minningar úr Þorlákshöfn muni fylgja þeim um ókomna tíð.

Fyrir hönd Lúðrasveitar Þorlákshafnar,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir

Fyrri greinKrakkaborg flutt í Flóaskóla
Næsta greinGóður útisigur Þórsara