Ásgeir Magnússon: Dyrhólaey

Í grein sem birtist á sunnlenska.is 9. maí undir yfirskriftinni „Skorað á umhverfisráðherra vegna Dyrhólaeyjar“ skora Náttúruverndarsamtök Suðurlands á umhverfisráðherra að koma á réttlátri stjórnun á friðlandinu í Dyrhólaey, eins og þar er sagt.

Á vegum Mýrdalshrepps sem einn stærsti landeigandi í Dyrhólaey hefur í vetur verið unnið að samningi við Umhverfisstofnun um rekstur og umsjón friðlandsins í Dyrhólaey. Þessi samningur tekur til alls fuglalífs og náttúru í Dyrhólaey og þess hvernig skuli tryggja vernd eyjarinnar sem best.

Ráðinn hefur verið landvörður til starfa í Dyrhólaey í sumar og hefur hann þegar hafið störf við gæslu og umsjón með friðlandinu. Til stendur samkvæmt samningnum að byggja upp og hlúa að fuglalífi í Dyrhólaey. Það verður gert með gæslu, stýringu, merktum gönguleiðum, verndun og takmörkun umferðar um viðkvæmustu varplönd og góðu upplýsingaflæði til gesta eyjarinnar.

Samningurinn kveður skýrt á um að gerð verði verndaráætlun fyrir Dyrhólaey og að vinnu við gerð hennar komi allir hagsmunaaðilar, þeirri vinnu á að ljúka fyrir 12. maí á næsta ári. Nauðsynlegt er að skoða vandlega alla þætti sem haft geta áhrif á fuglalíf til að vinna að endurreisn þess, en samkvæmt áliti náttúrufræðings sem farið hefur um eyna, starfar fuglalífi mun meiri og alvarlegri hætta af ágangi vargs en umferð fólks. Þá er einnig ljóst er að ekki er hægt að rekja hnignun fuglalífs í eynni til umferðar manna í Dyrhólaey, því eyjan hefur verið lokuð allri umferð í maí og júní seinustu árin.

Þá er í samningnum undirstrikað að bændur í Dyrhólahverfi munu áfram halda sínum sjálfbæru nytjum, í sátt við náttúru, landeigendur og aðra hagsmunaaðila.

Sveitarstjórn treystir því að umhverfisráðherra styðji þá vinnu sem í gangi hefur verið um uppbyggingu í eynni og samstarf sveitarstjórnar Mýrdalshrepps og Umhverfisstofnunar sem hefur það eina markmið að tryggja að uppbygging náttúru og fuglalífs í Dyrhólaey geti hafist sem fyrst.

Ásgeir Magnússon sveitarstjóri.

Fyrri greinSunnlenska deildin fær nýtt nafn
Næsta greinGuðmunda valin í A-landsliðið