Við vitum öll að síðustu tæpu tvö ár hafa reynst okkur mörgum erfið og nú nálgast aðventan þar sem flestum langar að gera sér dagamun og njóta þess að fara á jólatónleika og aðra menningarviðburði, sem ekki var hægt að gera á aðventunni fyrir ári síðan. Það var því sérstaklega ánægjulegt að sjá þegar núverandi sóttvarnaraðgerðir voru tilkynntar að áfram átti að leyfa sitjandi menningarviðburði fyrir allt að 500 manns með því skilyrði að allir sem tónleikana sækja fari í þar til gerð hraðpróf, sem eru greidd af ríkinu og kosta því tónleikagesti ekkert nema fyrirhöfnina.
Það er hinsvegar ekki alveg jafn ánægjulegt að sjá misskiptinguna þegar kemur að aðgengi að hraðprófum, því fyrir íbúa í Árnessýslu og Rangárvallasýslu eru þau aðeins framkvæmd á milli kl. 9-12 á virkum dögum á Selfossi. Það þýðir að fólk sem vinnur dagvinnu einhversstaðar annarsstaðar en á Selfossi þarf að taka sér frí fyrir hádegi og koma sér á Selfoss til þess að fara í próf, sem getur þýtt 1-2 klst frá vinnu, eftir því hversu löng biðin er. Þetta er ekki mjög hvetjandi og mun vafalaust draga verulega úr aðsókn á menningarviðburðum á Suðurlandi, sér í lagi þeim sem ekki fara fram á Selfossi.
Í Reykjavík eru þrír aðilar sem bjóða upp á hraðpróf og þar á meðal Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sem býður upp á þessa þjónustu á milli kl. 8-20 alla virka daga og frá kl. 9-15 á laugardögum. Þetta gerir það að verkum að það geta allir, óháð vinnutíma sínum skotist í hraðpróf, þ.e.a.s. þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.
Það myndi jafna stöðuna talsvert ef að það væri hægt að fara í hraðpróf á öllum heilsugæslustöðvum HSU t.d. á föstudögum og bjóða jafnvel upp á laugardagsopnun á Selfossi, líkt og gert er í Reykjavík. Þannig myndu menningarnjótendur og fólk sem starfar í menningu á Suðurlandi og er að reyna að bjóða upp á menningardagskrá á aðventunni, búa við sömu aðstæður og fólk á höfuðborgarsvæðinu.
Ef það er eitthvað sem við þurfum núna á þessum furðulegu tímum sem eru farnir að reyna verulega á þolrif margra, þá er það einmitt að fá að njóta þess að fara á tónleika með fólkinu okkar á aðventunni og næra huga og sál í öruggu umhverfi.
Ég skora því á HSU að endurskoða þetta fyrirkomulag hið snarasta og bæta í þessa þjónustu fyrir okkur sem hér búum.
Virðingarfyllst,
Ása Berglind Hjálmarsdóttir
Menningarstjórnandi