Nemendum í grunnskólum í sveitarfélaginu hefur fjölgað mikið síðustu misseri.
Mest er fjölgunin í Sunnulækjarskóla, nokkuð fjölgaði í Vallaskóla á síðsta ári og einnig hefur nemendum fjölgað í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri. [Sjá töflu um nemendaþróun neðst í greininni]
Næsta stóra skref í uppbyggingu grunnskóla á Selfossi er bygging skóla í Björkurstykki. Vinna stendur nú yfir við deiliskipulag svæðisins og er gert ráð fyrir að hönnun gatna að skólanum hefjist síðar á þessu ári. Starfshópur sem vinnur að undirbúningi nýs skóla mun vinna þétt næstu vikur og mánuði og er gert ráð fyrir að vinna við hönnun skólans hefjist síðla þessa árs. Stefnt er að útboði á fyrri hluta ársins 2019 og að taka fyrsta áfanga nýs skóla í notkun haustið 2020.
Við fjárhagsáætlunavinnu fyrir árið 2018 var ljóst að gera þyrfti ráðstafanir til að mæta þeim nemendafjölda sem fyrirséð er að verði í Sunnulækjarskóla frá hausti 2018 þar til að nýr skóli verður tekinn í notkun haustið 2020. Áætlað er að fjöldi nemenda verði yfir 700 haustið 2018. Fjölgunin þar hefur gert það að verkum að verulega hefur þurft að þrengja að nemendahópum og gera breytingar á starfi skólans og nánast að troða nemendum í hvert rými.
Fyrstu hugmyndir gengu út að að koma fyrir bráðabirgðahúsnæði til að hýsa kennslu í tvo vetur. Skoðaðir voru tveir möguleikar á útfærslu þess. Fljótlega kom í ljós að kostnaður við bráðabirgðahúsnæði af þeirri stærð að það gæti rúmað 75 nemendur slagaði hátt í kostnað við að byggja varanlegt húsnæði. Kostir við að byggja varanlegt húsnæði fremur en að setja upp bráðabirgðalausnir eru margir. Stór kostur í þessu tilviki er að varanleg aðstaða við Sunnulækjarskóla getur þjónað hlutverki heimasvæðis fyrir frístundaheimilið Hóla þegar nemendum fækkar aftur í Sunnulækjarskóla með tilkomu nýs skóla í Björkurstykki. Skólavistun Sunnulækjarskóla hefur ekki haft fullnægjandi aðstöðu, en með þessu nýja rými mun aðstaða fyrir skólavistun þar koma til með að jafnast á við það sem nú þegar er í Bifröst við Vallaskóla og Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Nemendum fjölgaði líka í Vallaskóla á síðasta ári, þó svo að fjölgunin sé minni. Til þess að bregðast við fjölgun nemenda í Vallaskóla verður á þessu ári byggt yfir svonefnda útigarða í skólanum og kennslurýmum þar með fjölgað. Einnig verður ráðist í umtalsverðar endurbætur á húsakosti skólans, þ.m.t. kennslueldhúsi, lagfæringu á kennslustofum, aðstöðu fyrir skólahjúkrunarfræðing, endurbætur í íþróttahúsi og í Bifröst.
Stefna bæjaryfirvalda er að hver og einn grunnskóli sé ekki fjölmennari en svo að þar stundi um 450-550 nemendur nám á hverjum tíma. Hvorki er talið æskilegt að Vallaskóli né Sunnulækjarskóli séu stærri en svo. Eftir er að ákveða nákvæmlega hvert verður upptökusvæði nýs skóla í Björkurstykki og þar með breytingar á mörkum núverandi skólahverfa. Ljóst er þó að í framtíðinni mun hluti barna sem hefur skólagöngu og býr við götur sem nú tilheyra skólahverfi Sunnulækjarskóla eða Vallaskóla eiga skólasókn í nýjan skóla.
Á samfélagsmiðlum hefur mátt lesa skrif um samanburð á fjármagni til fjárfestingar í skólunum síðustu ár og samanburð á fermetrafjölda á nemanda. Því er til að svara að Sunnulækjarskóli hefur verið byggður í mörgum áföngum á undanförnum árum, eitt skref í einu til að mæta stækkandi nemendahópi. Vallaskóli var byggður fyrir nokkrum áratugum, nemendafjöldi hefur lengi haldist stöðugur, og fjárfesting þar hefur snúist um endurbætur á húsnæðinu og skólalóðinni, auk þess sem umtalsverðu fé var eytt til að gera Valhöll að kennslurými fyrir yngstu börnin. Það er því verið að bera saman epli og appelsínur í þessu tilliti.
Hvað fermetrafjöldann varðar þá gleymist að taka tillit til nokkurra þátta sem gera það að verkum að fermetrafjöldi á nemanda í Sunnulækjarskóla virðist mun meiri en í Vallaskóla. Þar á meðal er það að í Sunnulækjarskóla eru nokkur rými sem nýtt eru fyrir annað en kennslu á vegum skólans. Má þar nefna æfingasal taekwondodeildar UMFS, aðstöðu Tónlistarskóla Árnesinga og Setrið, sérdeild Suðurlands, en þangað sækja m.a. nám börn sem ekki eru skráð í Sunnulækjarskóla. Allt snýst þetta um þjónustu við börn og er starfsemi sem er gott að hafa í skólanum, en skekkir þann samanburð sem einhverjir hafa viljað dvelja við.
Nú sem fyrr verður lögð áhersla á að tryggja börnum í Árborg góða líðan, menntun og gott skólaumhverfi.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar
Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður fræðslunefndar