Ráðherra sjávarútvegsmála hefur látið vinna drög að frumvarpi til nýrra laga um fiskveiðistjórnun.
Í stað þess að hefja málefnalega umræðu um þær tillögur hefur umræðan beinst að því hvort ráðherra hafi umboð til þeirra starfa. Málið var yfir 100 vikur í samráðsferli ríkisstjórnarflokkanna án þess að árangur næðist. Nú hefur ráðuneytið tekið sér 7 vikur til að greiða úr þeirri umræðu og leggja fram vinnuskjöl og er þá sakað um seinagang.
Vanstillt og vanhugsuð viðbrögð vegna málsins vekja upp spurningar sem undirritaður reifar hér í pistli.
Þriðjudaginn 22. nóvember sl. lagði Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fram í ríkisstjórninni vinnuskjöl, þ.e. drög að frumvarpi til breytinga á fiskveiðistjórnunarlögunum ásamt greinargerð og þrjú fylgiskjöl. Einnig var fjallað um málið á ríkisstjórnarfundi 25. nóvember sl.
Þessi vinnuskjöl voru lögð fram sem umræðugrundvöllur, jafnt í ríkisstjórn sem og í þingflokkum stjórnarflokkanna, með þeim einlæga ásetningi að leita sátta í málinu. Jón Bjarnason kynnti auk þess ætlun sína að kynna þessi gögn á netinu til að leita eftir athugasemdum og ábendingum hagsmunaaðila og almennings. Það var gert í anda samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum.
Dómgreindarleysi
Eins og kunnugt er fór forsætisráðherra á límingunni og brást ókvæða við með stóryrðum í garð Jóns Bjarnasonar um „vinnubrögð“ hans. Fleiri fylgdu í fótspor hennar, þar með talinn þingflokksformaður VG, Björn Valur Gíslason.
Þessi vanstilltu og vanhugsuðu viðbrögð sýna dómgreindarleysi. Ég satt best að segja reiknaði með að forsætisráðherra og aðrir sporgöngumenn hennar hefðu látið svo lítið að kynna sér efnisatriði vinnuskjalanna áður en þau létu gamminn geisa um meint óboðleg vinnubrögð. Að þau tjáðu sig um efni málsins en létu ekki reiði vegna afstöðu Jóns Bjarnasonar í ESB málinu ráða för og villa sér sýn.
Ég spyr. Var það óboðlegt að skipa sáttanefnd undir forystu Guðbjarts Hannessonar og Björns Vals Gíslasonar sem skiluðu af sér skýrslu í september 2010 eftir rúmlega árs vinnu? Var það óboðleg af Jóni Bjarnasyni að láta starfsmenn ráðuneytis síns vinna drög að frumvarpi um ný fiskveiðistjórnunarlög í anda skýrslu sáttanefndarinnar í samráði við sex þingmenn stjórnarflokkanna? Þau voru Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir og Róbert Marshall frá Samfylkingunni og Atli Gíslason, Björn Valur Gíslason og Lilja Rafney Magnúsdóttir frá VG. Þetta frumvarp leit dagsins ljós í lok febrúar 2011. Og ég spyr enn. Var það óboðlegt af Jóni Bjarnasyni að samþykkja að sömu þingmenn auk ráðherranna Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóns Bjarnasonar, Steingríms J. Sigfússonar og síðar Guðbjarts Hannessonar færu yfir þessi frumvarpsdrög og leggðu fram endanlegt frumvarp?
Bilið milli Björns Vals og Ólínu
Er það á ábyrgð Jóns Bjarnasonar að bullandi ágreiningur var um frumvarpið innan stjórnarflokkanna? Er við Jón Bjarnason að sakast að frumvarpið varð ekki að lögum meðan það var í meðförum Alþingis allt fram í september sl.? Verður Jóni Bjarnasyni kennt um að himinn og haf eru milli skoðana Ólínu Þorvarðardóttur og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur annars vegar og Björns Vals Gíslasonar, talsmanns Steingríms J. Sigfússonar, og Kristjáns Möller hins vegar um fiskveiðistjórnunarfrumvarpið svo einhver nöfn séu nefnd?
Eru það óboðleg vinnubrögð Jóns Bjarnasonar að skipa starfshóp til að vinna úr umsögnum um hið óbrúklega maífrumvarp og leggja fram vinnuskjöl með tillögum til umræðu innan ríkisstjórnar og þingflokka og meðal hagsmunaaðila og almennings aðeins sjö vikum eftir að hann fékk málið aftur í fangið frá þinginu? Dæmi nú hver um sig.
ESB málið ræður för
Ég velkist ekki í vafa eftir að hafa verið þátttakandi í þessu leikriti, reyndar í aukahlutverki frá því 21. mars 2011, hvað sé óboðlegt í málinu. Yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart Jóni Bjarnasyni eru lýðræðislega óboðlegar. Þær eru aumt og ódrengilegt yfirklór.
Þar ræður för óbeisluð og uppsöfnuð reiði í garð Jóns Bjarnasonar fyrir heiðarlega afstöðu hans gagnvart ESB-umsókninni. Jón Bjarnason hefur verið lagður í einelti af Samfylkingunni svo misserum skiptir og það án þess að formaður VG lyfti litla fingri honum til varnar. Eru Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon búin að gleyma samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir orðrétt:
„Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma.“?
Framganga Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart Jóni Bjarnasyni og reyndar einnig Ögmundi Jónassyni vegna Grímsstaðamálsins og fyrri uppákomur vekja upp áleitnar spurningar.
Höfundur er alþingismaður