Auðgandi landbúnaður (e. regenerative agriculture) hefur vakið athygli sem sjálfbær landbúnaðaraðferð víða um heim. Þessi nálgun stuðlar að heilbrigði jarðvegs, dýra, manna, vistkerfa og samfélaga. Aðal breytingin á búskaparháttum frá hefðbundnunm landbúnaði er að jarðvegurinn er ekki plægður, plantað er fjölbreyttum grösum (auk smára og t.d. höfrum) á túnin, og beit dýra er stýrð yfir landið. Auk þess stórminnkar nauðsyn þess að nota tilbúinn áburð og slíkur efnaáburður verður oft óþarfur og minnkar til muna kostnað aðfanga fyrir bændur.
Jarðvegsheilsa
Bændur sem stunda auðgandi landbúnað eru með fókusinn á jarðveginum – forðast að plægja land sem og aðra jarðvegstruflun til að viðhalda náttúrulegri uppbyggingu jarðvegsins. Í þess stað eru fræ boruð ofan í túnin eða akrana. Rannsóknir hafa sýnt að þessi nálgun getur bætt vatnsheldni jarðvegs og dregið úr jarðvegseyðingu. Heilbrigður jarðvegur er grundvöllur fyrir heilbrigði plantna og dýra. Auðgandi landbúnaðarhættir bæta jarðvegsuppbyggingu, auka vatnsheldni og stuðla að betri næringarefnahringrás, sem leiðir til heilbrigðari plantna og betri beitar fyrir búfé. Þetta leiðir einnig til betri heilsu dýra og minni þörf fyrir sýklalyf og önnur inngrip. Mikilvægt er að nefna einnig að auðgandi landbúnaður er ein af nokkrum landbúnaðaraðferðum sem setja fókusinn á jarðvegsheilsu. Skildar aðferðir eru lífrænn landbúnaður (e. organic farming), vistlandbúnaður (e. agroecology), skógarlandbúnaður (e.
agroforestry) og vistrækt (e. permaculture). Einnig má nefna að skiptisræktun, sem felur í sér að rækta mismunandi plöntutegundir frá ári til árs á sama landi, stuðlar að fjölbreytni í jarðvegsörverum og dregur úr þörf fyrir tilbúinum áburð og varnarefnum (ef við á).
Kolefnisbinding og líffræðileg fjölbreytni
Auðgandi landbúnaðarhættir stuðlar að aukinni kolefnisbindingu í jarðvegi. Með því að auka lífrænt efni í jarðvegi er bundið kolefni úr andrúmsloftinu, sem minnkar magn koltvísýrings í andrúmslofti og dregur úr loftslagsbreytingum. Mikilvægt er einnig að skilja jarðveginn aldrei eftir auðan, vera alltaf með gróður á landinu sem þekur jarveginn – einnig á vetrum.
Þannig er jarðvegurinn varinn frá veðri og vindum og örverur í jarðveginum frá næringu frá ljóstillífun þekjuplantnanna. Jarðarbúar nýta um 5 milljarða hektara (50 milljónir km 2 ) af landbúnaðarlandi, sem samanstendur bæði af ræktarlandi og beitilöndum. Ef auðgandi landbúnaðarhættir yrðu innleiddir á öllu þessu landi, gæti aukin kolefnisbinding mögulega jafnað út alla árlega CO₂ losun mankyns. Benda má á að slíkur umskiptiferill er flókinn vegna efnahagslegra, samfélagslegra og skipulagslegra þátta. En Íslendingar gætu tekið þátt í slíku umbótarverkefni. Loks má geta að aukin líffræðileg fjölbreytni er lykilatriði í auðgandi landbúnaði. Ofanjarðar stuðlar fjölbreyttur gróður að auknum fjölda nytjaskordýra og fugla, sem eykur vistkerfisþjónustu eins og frævun og náttúrulegt meindýraeftirlit. Neðanjarðar eykur fjölbreyttur gróður örverufjölbreytni í jarðvegi, sem bætir næringarefnahringrás og jarðvegsuppbyggingu.
Stýrð beit
Ein aðal breytingin fyrir þá sem skipta yfir í auðgandi landbúnað er að búfé er flutt reglulega milli beitispildna til að leyfa gróðri að endurnýjast. Dýrunum er síðan haldið á spildunni með rafmagnsgirðingu. Þetta líkir eftir náttúrulegum beitarmynstrum og bætir bæði heilsu jarðvegs og gróðurþekju. Gabe Brown, bóndi frá Norður-Dakóta í Bandaríkjunum, innleiddi stýrða beit á búgarði sínum fyrir meira en 30 árum með góðum árangri, sem hefur leitt til aukinnar framleiðni og sjálfbærni. Með því að plægja ekki, stunda skiptisræktun og stýa beit hefur hann aukið lífrænt efni í jarðveginum á landinu úr 1,7% í yfir 10%, sem hefur leitt til aukinnar framleiðni og minnkandi kostnaðar fyrir áburð og varnarefni. Þetta má lesa um í fróðlegri bók hans sem ber titilinn ´Dirt to Soil.´
Auðgandi landbúnaður á Íslandi
Á Íslandi eru bændurnir að Lækjartúni í Ásahreppi, Tyrfingur Sveinsson og Hulda Brynjólfsdóttir, frumkvöðlar í auðgandi landbúnaðaraðferðum. Síðan 2019 stýra þau beit nautgripa yfir túnin öll vor, sumur og haust, sem og yfir vetrartímann þegar snjóar leyfa. Beit sauðfés er stýrt yfir landið á vorin og á haustin. Auk þess eru þau með hænsni í færanlegum bíl sem veitir lausagönguhænunum aðgang að auðugri næringu orma og annarra smádýra og þeir skilja eftir næringarefni á landinu. Svín fá líka að rótast um í útirækt á sumrin. Þau Hulda og Tyrfingur drógu úr tilbúnum áburði 25% ár ári í fjögur ár og sl tvö sumur hafa þau ekki notað neinn efnaáburð, einungis moltu og skít. Ég hef verið svo heppin að geta keypt af þeim nauta- og kindakjöt, sem og svínakjöt og kjúklinga – já og egg líka. Ég vísa alltaf til þess að fólk sé að borða hamingjukjöt eða egg þegar vinir mínir og vandamenn koma í mat, enda eru afurðirnar gómsætar.
Ráðstefna 2. apríl, 2025
Þessi grein er skrifuð til að vekja athygli á fyrstu ráðstefnunni um auðgandi landbúnað á Íslandi sem verður á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík 2. apríl. Fyrirlesarar frá Bandaríkjunum verða Peter Byck Prófessor við ríkisháskólann í Arizona, Dr. Allen Williams bóndi og fyrrum háskólakennari og Dr Chris Nichols ráðgjafi. Auk þeirra tala Hulda Brynjólfsdóttir bóndi, Dr Susanne C. Möckel frá LbHÍ og ég frá HÍ. Pallborði stýrir Dr Ragnheiður I. Þórarinnsdóttir rektor LbHÍ og opnun ráðstefnunnar verður í höndum Erin Sawyer starfandi sendiherra Bandaríkjanna og Hönnu Katrínar Friðriksson
atvinnuvegaráðherra. Skipuleggjendur og styrktaraðilar ráðstefnunnar eru Dalahvítlaukur, Landbúnaðarháskólinn, Sveitakarlinn, Litli búgarðurinn, Bandaríska sendiráðið og Atvinnuvegaráðuneytið. Aðgangur er ókeypis. Sjáumst 2. apríl!
Kristín Vala Ragnarsdóttir,
prófessor emerita, Háskóla Íslands
Viðburður á fésbók með fullri dagskrá.
Skráning. Ráðstefnuþátttakendur fá 20% afslátt á gistingu á Hotel Hilton Nordica.