Kæri kjósandi. Laugardaginn 27. nóv. fara fram kosningar til stjórnlagaþings og þar sem ég er einn hinna fjölmörgu frambjóðenda vil ég segja þér aðeins frá mér og hverjar áherslur mínar eru.
Ég fæddist sléttum 60 árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki í Reykjavík. Ég ólst upp þar og í Neskaupstað. Ég hætti námi fljótlega eftir grunnskólanám og hef verið á vinnumarkaði síðan. Þegar ég var 18 ára gamall flutti ég úr Reykjavík til Neskaupstaðar og fékk vinnu hjá Síldarvinnslunni þar sem ég vann í tæp átta ár við fiskvinnslu. Ég ætlaði mér ekki að vera þar svo lengi, en ég kynntist pólskri konu sem er töluvert eldri en ég og varð ástfanginn af henni. Hún flutti hingað alfarið í kjölfarið ásamt dætrum sínum tveim sem ég lít á sem mín eigin börn. Því miður entist samband okkar ekki, en við erum samt góðir vinir. Í dag er ég giftur yndislegri konu frá Bandaríkjunum og við búum í Hveragerði.
Á meðan ég bjó fyrir austan tók ég virkan þátt í verkalýðsstarfi og var trúnaðarmaður í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar með sérstaka áherslu á erlenda starfsmenn og þeirra réttindi. Ég var líka í trúnaðarmannaráði AFLs og Alþýðusambands Austurlands. Ég hef alltaf haft skoðanir á stjórnmálum og það hefur náð nýjum hæðum þar sem ég tók þátt í stofnun Samtaka fullveldissinna og er í stjórn þeirra ásamt því að vera í stjórn suðurlandsdeildar Heimssýnar.
Þau atriði sem ég vil helst sjá breytast í stjórnarskrá lýðveldisins eru að íslenskt tal- og táknmál séu skilgreind sem opinber tungumál lýðveldisins, að ekki sé minnst á eitt trúfélag umfram annað, að ráðherra geti ekki jafnframt gegnt þingmennsku og síðast en ekki síst að vald almennings sem æðsta valds þjóðarinnar komi skýrt fram með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég er ekki hlynntur fækkun þingmanna en vill beita mér fyrir kosningakerfi sem auðveldar röddum minnihlutahópa að heyrast á alþingi.
Ég hvet þig kæri kjósandi til að mæta á kjörstað þann 27. og nýta atkvæði þitt til að hafa áhrif á hverjir sitja þetta tímamótaþing.
Axel Þór Kolbeinsson
frambjóðandi númer 2336