Við upplifum einstaka tíma í íslenskri pólitík. Aldrei áður hafa eins mörg framboð boðið fram, aldrei hafa eins miklar sveiflur verið á fylgi flokkanna og aldrei hafa eins margir kjósendur verið óákveðnir þegar svo stutt er í kosningar.
40% kjósenda hafa ekki gert upp hug sinn samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði dagana 17. – 23. Apríl.
Hagsmunaöfl í íslensku samfélagi róa nú öllum árum að því að íslenskt samfélag taki ekki róttækum breytingum. Fjölmiðlar spila þar stóra rullu en einnig hafa þau fyrirtæki sem framkvæma skoðanakannanir gríðarlega mikil áhrif. Framkvæmd þessara kannana og þær spurningar sem lagðar eru fyrir úrtakið geta haft úrslitaáhrif um niðurstöðu þeirra.
Skoðanakannanir þær sem nú dynja yfir okkur eru m.a. framkvæmdar með þeim hætti að valið er úrtak, svosem 1.900 manns, 1.200 manns svara, 27% af þeim gefa upp afstöðu sína og eftir það er spurt sérstaklega út í líkur á því að kjósa hvern flokkinn af fjórflokknum á fætur öðrum, ekki er almennt talin þörf á að spurja kjósendur frekar um ný framboð í þessum könnunum enda hafa þau ekki færi á því að kaupa sér spurningar eins og ríkisstyrktur fjórflokkurinn gerir.
Það gefur augaleið að slík aðferðafræði er mjög skoðanamótandi og skilur ekki eftir mikið svigrúm fyrir breytingar frá þeim flokkum sem við höfum haft undanfarna áratugi.
Íslendingar eru hinsvegar búnir að fá nóg af óbreyttu ástandi. Um það ber fjöldi óákveðinna kjósenda glöggt vitni. Áfram munu hagsmunaöflin reyna að telja kjósendum trú um það að þeir kasti atkvæði sínu á glæ með því að kjósa eitthvert af nýju framboðunum. Almenningur veit það hinsvegar að aðeins með því að kjósa óbreytt kerfi eru þeir að fara svo illa með atkvæði sitt.
Staðreyndin er sú að við getum ekki búið áfram við óbreytt kerfi, verðtryggingin verður að fara. Við hana verður ekki unað og útilokað er að bjóða börnum okkar upp á framtíð þar sem að meirihluti þjóðarinnar er hafður í skuldafangelsi til þess eins að stjórnendur lífeyrissjóðanna og starfsmenn fjármálastofnana geti falið vanhæfni sína.
Forsendubrestinn verður að leiðrétta. Það gerist á einn veg eða annan og ég trúi því ekki að fólk vilji gera það í gegnum fjöldagjaldþrot sem skilja þá sem fóru varlega eftir í skuldafangelsi.
Ég er sannfærður um það að við kjósendur komum til með að láta eigið hyggjuvit ráða ferðinni þegar komið verður í kjörklefann. Þeir sem hafa hag af óbreyttu kerfi vilja telja okkur trú um að það séu bara gömlu flokkarnir sem að koma til greina, við vitum betur.
Kjósum breytingar á laugardaginn kemur, við þörfnumst þess.
Axel Óli Ægisson – 3. frambjóðandi Hægri Grænna í Suðurkjördæmi