Bætt heilbrigðisþjónusta er forgangsmál

Það er eðlileg krafa íbúa í landinu að búa við öryggi og hafa aðgengi að læknaþjónustu. Í samtali Kristrúnar Frostadóttir við landsmenn á 150 fundum víða um landið síðastliðin tvö ár var þessi krafa skýr og þess vegna var það áherslumál Samfylkingarinnar fyrir nýliðnar kosningar að bæta heilbrigðiskerfið og tryggja fólki öruggt aðgengi að heimilislæknum.

Það þekkja það flestir á eigin skinni hversu slæmt ástandið er og á Suðurlandi eru margar birtingamyndir þess. Þar má nefna nýleg dæmi í Rangárvallasýslu sem hafa verið í umræðunni. Á ferðalögum okkar um landshlutann í lok árs fengum við líka að kynnast vel ástandinu í Austur- og Vestur Skaftafellssýslum þar sem fáir heimilislæknar eru fyrir mjög stórt svæði sem er með mikinn þunga af ferðafólki allt árið um kring og neiðarviðbragð ábótavant. Í Vestmannaeyjum er einnig mikið álag og oft löng bið eftir sjúkraflugi. Ástandið er óviðunandi og alveg sérstaklega í dreifðum byggðum landsins.

Ný ríkisstjórn ætlar að fjárfesta í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu til þess að styrkja stoðir hennar um allt land og vinna að þjóðarmarkmiði um fastan heimilislækni fyrir alla landsmenn. Hún ætlar að leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, meðal annars fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimahjúkrun og sérstök áhersla verður lögð á að stytta biðtíma barna eftir heilbrigðisþjónustu, auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjármagna meðferðarúrræði vegna fíknivanda. Draga þarf úr skriffinsku í heilbrigðiskerfinu með hagnýtingu á tækni og nýsköpun.

Eins og gefur að skilja þá tekur sumt lengri tíma en annað, en ástandið víða er þannig að ráðast verður í aðgerðir strax. Alma Möller, heilbrigðisráðherra hefur greint frá því að allt kapp sé lagt á að bæta úr stöðunni í samvinnu við HSU og sveitarfélögin. Bætt heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni til framtíðar er eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar. Fjölga þarfi menntuðum heimilislæknum, koma á fót sérnámi í héraðslækningum auk þess sem gera þarf vinnuaðstæður og kjör lækna á landsbyggðinni aðlaðandi fyrir ungt fólk. Læknaskortur er óásættanlegur og það er forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar að bæta úr stöðunni, með bráða- og langtímaaðgerðum.

Víðir Reynisson,
3. þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir,
9. þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Fyrri greinHvergerðingar sópuðu til sín verðlaunum
Næsta greinÍslandsvinur vildi ekki gefa lagið út