Íbúar í Rangárþingi eystra munu hugsa á heilsusamlegum nótum í upphafi september þar sem blásið verður til svokallaðar heilsuviku í sveitarfélaginu 2.-9. september.
Stofnanir sveitarfélagsins taka allar þátt með heilsusamlegu mataræði og hvetja með því að hvetja starfsfólk sitt til hreyfingar. Leik og grunnskólabörn munu einnig taka þátt í þessari viku.
Boðið verður upp á ýmsa fyrirlestra þar sem íþróttafræðingar, einkaþjálfari, næringarfræðingur, sálfræðingur og fl. verða með fræðslu varðandi heilsu og heilsueflingu. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þeir sem vilja sjá hvernig þeir eru staddir heilsufarslega eiga kost á að fara í fría heilsufarsmælingu á Heilsugæslustöðinni. Frítt verður í sund alla vikuna og í Olympus heilsuræktina, kynning verður á Boot camp, jóga og Zumba. Umhirða húðarinnar fær athygli þar sem snyrtifræðingur kennir okkur að hugsa um hana. Lyf & heilsa lætur ekki sitt eftir liggja og verður með tilboð á vítamínum og nikótínlyfjum, um að gera að nýta sér það.
Fjölskyldufólk ætti að nota tækifærið og sameinast í fjölskyldugöngu um Tumastaðaskóg í Fljótshlíð, einnig er ætlunin að fara í skipulega göngu á Stóra Dímon. Heilsustígurinn okkar er 4,2 km. langur stígur sem liggur um þorpið með allskyns stöðvum sem taka á styrk, liðleika og úthaldi. Hann verður nýttur í heilsuvikunni og verða íþróttakennarar sem fylgja fólki í gegnum stíginn.
Í tilefni af heilsuviku verða nýir og glæsilegir útiklefar og gufubað formlega opnaðir við sundlaugina á Hvolsvelli.
Miðvikudagurinn 5.september verður bíllaus dagur á Hvolsvelli og allir þeir sem vettlingi geta valdið hvattir til að ganga til vinnu sinnar og skóla. Sláum tvær flugur í einu höggi – spörum bensín og hreyfum okkur um leið.
Benedikt Benediktsson
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi
Rangárþing eystra