„Ertu þá orðinn kommúnisti, aftur?“ spurði nágranni minn mig eftir að hafa frétt að ég færi fram á lista VG í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þar sem tími til að spjalla var stuttur í það sinnið varð ég að láta duga að svara spurningunni stuttaralega með nei-i.
Og það er rétt athugað hjá granna mínum að ég aðhylltist róttæka byltingarstefnu á menntaskólaárum en var reyndar genginn af þeirri trú áður en mér hlotnaðist stúdentshúfan. Og það hefur aldrei síðan hvarflað að mér að gangast maóismanum aftur á hönd. En hitt er rétt að ég hefi færst til vinstri á síðustu misserum og tel í reynd ótrúlega forherðingu þegar menn sem áður studdu með mér ríkisstjórn Davíðs og Halldórs bíta í skjaldarrendur og hrópa, við gerðum víst rétt. Þrátt fyrir að vera enn sami framsóknarmaðurinn í hjarta tel ég mig ekki eiga samleið með flokkum sem neita að gera upp við þessa fortíð.
Við hrunið hefur sífellt komið betur í ljós að stjórnarstefna framsóknarmanna og sjálfstæðismanna einkenndist ekki bara af blindum oflátungshætti markaðshyggjunnar. Þar var með í för slík spilling og þau landráð af gáleysi að fáheyrt er í vestrænum lýðræðisríkjum. Hvort sem okkur líkar betur eða verr reyndist flest í gagnrýni vinstrimanna á einkavæðingu banka og annarra opinberra stórfyrirtækja ekki bara rétt heldur milduð útgáfa af raunveruleikanum. Það er vissulega mannlegt að berja hausnum við stein og styðja áfram sömu flokka, en það má deila um hvort það er stórmannlegt.
Með starfi mínu fyrir Vinstri græna tel ég mig ekki genginn heimskommúnismanum á hönd og fullyrði að aðeins lítill hluti þeirra sem þar starfa aðhyllist þá róttæku byltingarstefnu. Líklega eru í dag fleiri framsóknarmenn af gamla skólanum í VG en í nokkrum öðrum stjórnmálaflokki og þar eigum við vel heima.
Bjarni Harðarson, atvinnurekandi sem skipar 2. sætið á lista VG í Árborg.