Bjarni Harðar: Obbobobb, er ný brú á leiðinni?

– Á að setja brúna hér. Þetta er hræðilegt. Og hvernig verður með bæinn ykkar?

– Ja, þeir eru nú ekki byrjaðir á henni og það eru nú ekki allir sammála …, sagði ég.
– Ég hef ekki hitt neinn heimamann sem er hrifinn af þessu. Nema þá að þú sért það!
– Nei, ég hef ekki verið baráttumaður fyrir þessari brú sem fer bæði um skógræktina, golfvöllinn og Laugardælaeyju …

Einhvernveginn þannig var samtal sem ég átti við einn fjölmargra landsmótsgesta um liðna helgi. Nú þegar yfirvöld boða að hefja eigi brúarsmíði árið 2014 renna tvær grímur á marga. Bæði er að brúarstæðið eyðileggur mikilvæg útivistarsvæði beggja megin ár og síðan veit enginn fyrir víst hvaða áhrif ný brú hefur á mannlíf í Selfossbæ. Verður hér til sérstakur bílastæðabær eins og orðið hefur í Borgarnesi.

Ný brú á Ölfusá hefur lengi verið í umræðunni enda umferðarþungi mikill á þeirri einu sem þjónar bæði kaupstað og hringvegi. Fyrr en seinna kemur að því að hér þarf vegbætur. En af óðagoti hafa Íslendingar fengið nóg. Þó svo að brúarstæðið hafi verið margrætt á undanförnum áratugum hefur aldrei náðst nein samstaða um það mál og það er full ástæða til að endurskoða þá ákvörðun sem fyrir liggur um nýjan þjóðveg þvert í gegnum skógræktarsvæði og golfvöll.

Minnkandi umferð á þjóðvegum landsins vegna kreppu og hækkandi bensínverðs gefur okkur andrými í þessum efnum. Sérfræðingar í skipulagsmálum telja að gamla brúin geti enn um sinn annað umferð.

Núverandi meirihluti í Árborg er fljótfær þegar hann fagnar því að ríkisstjórnin ætli að flýta brúargerðinni um Laugardælaeyju. Það er margt sem bendir til að hér liggi ekkert á. Í þessu efni eru mjög breyttar aðstæður frá því sem var fyrir hrun þegar bílafloti og bílaumferð fór ört vaxandi ár frá ári.

Stærstu vandamálin á Ölfusárbrú og í miðbæ Selfoss eru annarsvegar tafir neyðarflutninga og hinsvegar miklir þungaflutningar í gegnum bæinn. Í reynd er þetta eitt og sama vandamálið og úr því má leysa. Við einfaldlega setjum reglur sem beina þungaflutningum sem fara milli Reykjavíkur og byggðanna austan við Selfoss niður fyrir bæinn um Óseyrarbrú . Þar með léttum við verulega á umferð um Selfoss, Ölfus og Hellisheiði þar sem umferðin er einmitt þyngst og hættulegust. Slík lausn gefur okkur nokkur ár til að ræða og skoða betur hvar nýrri brú á Ölfusá er best fyrir komið.

Höfundur er bóksali og fyrrverandi alþingismaður

Fyrri greinÞriðja innbrotið í Bjarnabúð
Næsta greinFimm á sjúkrahús eftir harðan árekstur