Björgvin G: Græn orka og færin í ferðaþjónustu

Ferðaþjónustan í allri sinni fjölbreytni er ein helsta vaxtagrein landsins þessi misserin.

Á örfáum árum hefur fjöldi erlendra gesta til Íslands stigið úr 300.000 í hálfa milljón á ári. Allt bendir til þess að enn fjölgi ferðamönnum á næstu árum og því ekki ofmælt að segja að greinin standi á tímamótum. Bæði hvað varðar viðhald og uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða og hvernig er hægt að veita meiri og betri þjónustu á hverju svæði auk hefðbundinnar verslunar og þjónustu við ferðamenn. Fengið þá til að stoppa lengur og betur á hverjum stað.

Hugmyndaauðgin í vexti greinarinnar er mikil. Líkt og við blasir af eftirtektaverðu starfi Markaðsstofu Suðurlands. Markaðsstofan er samstarfsverkefni sveitarfélaga og fyrirtækja á Suðurlandi. Stofnað var til hennar með það að markmiði að efla markaðs- og kynningarstarf á svæðinu.

Matur og menning
Menningartengd ferðaþjónusta er á margan hátt kjarninn í þessu starfi. Byggt er á sérstöðu, sérkennum og menningu hvers svæðis. Enda þrungið sögu og menningu hvar sem niður er borið. Eitt besta dæmið um slíkt starf er Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit. Einkar vel heppnuð uppbygging á alhliða ferðaþjónustu sem hvílir á ævistarfi þess mikla rithöfundar Þórbergs Þórðarsonar.

Þá skapar kraftmikill og fjölbreyttur landbúnaður mikil sóknarfæri inn í ferðaþjónustuna. Hér er stór hluti af matvælum landsins framleiddur. Mikil útgerð og fiskvinnsla og þá opna ný fengnar samgöngubætur mörg tækifæri. Suðurstrandavegur, Gjábakkavegur, brú yfir Hvítá og Landeyjahöfn. Allar opna þessar nýju leiðir sókn til margra átta.

Græn orka
Þá er ótalin orkunýtingin. Bæði fallvatnanna og í jörðu niðri. Í þau miklu mannvirki sem Landsvirkjun og Orkuveitan hafa reist til orkuvinnslu er mikil sókn bæði erlendra og innlendra ferðamanna. Hafa félögin gert margt gott til að mæta þessari aðsókn og opnað og auðveldað aðgengi að því merkilega fyrirbæri sem sjálfbær og vistvæn orkunýting okkar er.

Athyglin sem græn orka og framleiðsla hennar dregur að sér á eftir að aukast enn og mikið. Um leið og við verðum að finna leiðir til þess að nýta meira af framleiddri okru í héraðinu er hægt að ná miklum ábata út úr því aðdráttarafli sem orkuvinnslan er fyrir ferðaþjónustuna. Enda stór þáttur í menningu og mannlífi á Suðurlandi.

Bjartsýni á Búlandsvirkjun
Mikilvægt er að fara í samstillt átak fyrir svæðið austan Markarfljóts í uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Heimamenn binda miklar vonir við að fjárfestingar í greininni skili góðum árangri í varnarbaráttu svæðisins. Til dæmis með uppbyggingu Klausturstofu. Af því tilefni veitti Alþingi fyrsta framlagi til þess verkefnis nú í vetur. Eru fyrirætlanirnar án efa vísir að mikilli og vel heppnaðri uppbyggingu á þeim slóðum.

Þá skiptir sköpum til að snúa við samfélagsþróun og byggja upp öfluga atvinnuvegi að ná samstöðu um Búlands- og Atleyjarvirkjanir. Samstöðu út frá sjónarmiðum verndar og nýtingar líkt og unnið er að í Rammaáætlun nú. Þessar framkvæmdir munu hafa í för með sér hátt í 1.000 störf á byggingartíma og fjöldamörg föst störf til frambúðar.

Líkt er með Hagavatnsvirkjun. Hún er einkar hagkvæmur kostur sem skapar mikil tækifæri um leið og við græðum landið og ræktum með tilkomu hennar. Vonir standa til og málefnaleg rök að færa hana úr biðflokki í nýtingarflokk í vinnuferli þingsins um Rammaáætlun á næstu vikum.

Fjölbreytt flóra safna sem sprottið hafa upp um allt land gegna ríku hlutverki í uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu. Nú er Alþingi að fjalla um safnamálin, stöðu þeirra og umfang en mikilvægt er að halda vel utan um það oft sjálfsprottna framtak sem að baki þeim býr. Ágætlega hefur verið stutt við uppbyggingu margra þeirra í gegnum tíðina og því mikilsvert að þau nái að vaxa og starfa áfram.

Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis.

Fyrri greinRannsókn að hefjast á vettvangi
Næsta greinÁ sjötta tug slökkviliðsmanna að störfum