Aðgerðir gegn miklu brotthvarfi úr framhaldskólum landsins og efling verk og tæknináms er á meðal brýnustu verkefna okkar í skólamálum.
Öflugra verknám mun reynast helsta viðspyrnan gegn brotthvarfinu ásamt því að skapa mikinn mannauð í samfélaginu. Þessu höfum við fylgt eftir á liðnum misserum, m.a. með því að byggja yfir verknámið einsog nýjum Hamri, verknámshúsi FSu, og stofnun vinnustaðanámssjóðs.
Árlega stunda 7-8.000 nemendur hér á landi starfsnám af ýmsum toga á framhaldsskólastigi. Flestir þeirra þurfa að ljúka vinnustaðanámi eða starfsþjálfun á námsbraut sinni sem getur tekið allt frá 3 vikum til 126 af heildarnámsferli þeirra. Skilvirkasta leiðin til að draga verulega úr brottfalli á framhaldsskólastigi, sem er eitt það mesta í OECD, er án efa að efla iðn- og starfsnám. Með því skapast mikil samfélagsleg verðmæti í yfirgripsmikilli verk- og tækniþekkingu.
Með þetta að markmiði settum við í fyrra lög um vinnustaðanámssjóði. Með lögunum var stigið stórt skref til eflingar starfsnáms í skólakerfi okkar sem er eitt mikilvægasta markmið íslenskra menntamála í dag.
Tilkoma sjóðsins mun auðvelda iðn- og starfsnámsnemum verulega að komast í vinnustaðanám. Í mörgum tilfellum á samning hjá meistara. Það hefur á stundum reynst nemum örðugt að komast að í vinnustaðanámi eða á samning hjá meistara. Nauðsyn þess að skapa fjárhagslegan hvata til að mæta kostnaði af náminu hefur lengi legið fyrir ásamt þörfinni á því að auka möguleika nemenda á að ljúka starfsnámi sínu á eðlilegum tíma. Því mun tilkoma sjóðsins efla og styrkja verk- og tæknimenntun í íslenskum skólum svo um munar.
Öflugir háskólar – aukið samstarf
Háskólamenntun er með líkum hætti forsenda atvinnuþróunar, hagsældar og velferðar í samfélaginu. Markviss uppbygging hennar í héraði er lykilinn að því að skap ný, fjölbreytt og vel launuð störf í bland við iðnað og þjónustu. Tilkoma Fjölheima skapar mörg tækifæri á Suðurlandi til að efla fullorðinsfræðslu háskólanám og vísindastarf á svæðinu, auk farsællar starfsemi Rannsóknarmiðstöðvar HÍ í jarðskjálftaverkfræði sem komið var á fót fyrir 13 árum. Undir þetta starf þarf markvisst að byggja á næstu árum með fjárfestingum og nýjum verkefnum.
Almennt þarf að auka samstarf og verkaskiptingu háskóla í landinu með það fyrir augum að auka gæði og fjölbreytni náms samhliða því að tryggja jafnt aðgengi að námi óháð búsetu, efnahag eða félagslegri stöðu. Stuðla þarf að formlegu samstarfi allra háskóla í landinu um framtíðarstefnumótun háskólastigsins. Þar verði m.a. hugað að samræmdu rekstrarformi háskólanna, fjármögnun háskólastofnana, kennslu og rannsókna, aukinni sérhæfingu eftir fræðasviðum, og betri tengslum við atvinnulíf og samfélag.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.