Sveitarfélagið Árborg er samsett af þremur þéttbýliskjörnum og dreifbýli í kring, þar með talið búgarðabyggð.
Þessi samsetning gerir meiri kröfur á sveitarstjórn en í einsleitara sveitarfélagi svo að öllum íbúum finnist þeir vera jafnir.
Á ferð okkar um sveitarfélagið, þar sem við höfum heimsótt vinnustaði og stofnanir sveitarfélagsins, heyrum við um ýmislegt sem fólki finnst að betur megi fara. Það verður eitt mikilvægasta verkefni næstu sveitarstjórnar að laga þessi atriði, bæta samskiptin við íbúa, nýta fjármuni þannig að fólk sjái á sínu nærumhverfi að hlustað sé á það
og hugsað sé til framtíðar í framkvæmdum.
Þegar fólk er kosið í sveitarstjórn fær það umboð til að vinna með fjármuni íbúa og móta umhverfi þess og aðstæður. Þetta er mikið traust.
Þess vegna vil ég hvetja alla til að mæta á kjörstað og taka þátt í að skipa næstu sveitarstjórn og hafa þannig áhrif á framtíð sína og barna sinna. Kosningarétturinn er hornsteinn lýðræðisins.
Við á lista framsóknarflokksins bjóðum okkur fram til að vinna fyrir ykkur, íbúa sveitarfélagsins. Við vinnum í anda samvinnuhreyfingarinnar með samvinnu, heiðarleika og jöfnuð að leiðarljósi.
Björn Harðarson, skipar 3. sætið á B-listanum í Árborg.