Björn Sævar: Að velja sér frambjóðanda

Á morgun fer þjóðin að kjósa sér þingmenn á Stjórnlagaþing.

Þetta er stórmerkileg tilraun til aukins lýðræði að leyfa þjóðinni að velja sér fulltrúa til að skrifa stjórnarskrá og það er erfitt að finna þess dæmi hjá öðrum þjóðum. Mikill fjöldi frambjóðenda með yfir 20 þúsund meðmælendum sýnir áhuga þjóðarinnar og kröfu hennar um breytingar á stjórnarskránni. Ég vil hvetja alla til að kjósa og ég hvet þig lesendi góður að senda þennan hlekk http://kjostu.org/x-huh.html á vini og vandamenn sem andsvar við þeim sem ætla að sitja heima. Það er nóg að velja einn frambjóðanda (3513 er góður).

Þessar kosningar eru að stórum hluta persónukjör. Það eru margir frambjóðendur með svipaðar skoðanir og kjósandinn, og því snýst það um persónu frambjóðandans og hæfni hans til starfsins hvern kjósandinn kýs að setja í fyrsta sæti. Ég vil einnig á benda á að þingmenn hljóta næsta tvo og hálfan mánuð viða að sér meiri þekkingu sem mun móta skoðanir þeirra. Síðan á þinginu sjálfu munu skoðanir líka breytast við rökræður og nauðsyn þess að skrifa skýra og heildstæða stjórnarskrá sem breið sátt er um.

Að lokum eitt lauflétt dæmi um skrítið orðalag í nýlegri grein í stjórnarskránni. „54. gr. [Heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.]1) “. Það fyrsta sem sveitabarninu í mér datt í dug þegar ég sá orðið beiðast var kýr að beiða. En kannski lýsir það sambandi löggjafa- og framkvæmdavaldsins í dag ágætlega þar sem framkvæmdavaldið tuddast áfram.

Björn Sævar Einarsson – 3513
http://bjornsaevar.wordpress.com/

Fyrri greinStefán Gísla: Umhverfi og sjálfbær þróun í stjórnarskrá
Næsta greinSjóðheitir sjúkraflutningamenn á dagatali