Af gefnu tilefni telja undirrituð mikilvægt að birta bókanir fulltrúa Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingarnefnd og í bæjarstjórn Svf. Árborgar vegna afar umdeildra breytinga á deiliskipulagi í miðbæ Selfoss.
Bókun fulltrúa S-lista á 48. fundi skipulags- og byggingarnefndar:
„Þegar Sveitarfélagið Árborg afhenti Sigtúni þróunarfélagi lóðaréttindi í miðbæ Selfoss sem líklega eru með verðmætustu lóðaréttindum á Suðurlandi án auglýsinga eða útboðs var það gert á grundvelli hugmynda sem félagið hafi kynnt fyrir sveitarfélaginu og bæjarbúum. Ljóst er af samningi við félagið, deiliskipulaginu og afgreiðslu þess að engin trygging er fyrir því að fyrirætlanir þess gangi eftir.
Burt séð frá því hvaða skoðanir fólk hefur á þeim áformum félagsins að endurbyggja gömul hús með það að markmiði að skapa heilstætt svipmót miðbæjarkjarna og höfða til ferðamanna, þá er ljóst af deiliskipulaginu að Sigtún þróunarfélag verður ekki með neinum hætti skuldbundið til þess að standa að uppbyggingu svæðisins í samræmi við þær hugmyndir sem félagið hefur kynnt opinberlega. Samkvæmt deiliskipulaginu mun félagið hafa frjálsar hendur um hvernig það hagar útliti og gerð bygginga á svæðinu.
Tíminn mun leiða í ljós hvernig uppbyggingunni verður háttað og hvort félagið hyggst standa við þær fyrirætlanir sem kynntar hafa verið fyrir íbúum sveitarfélagsins eða hvort beygt verður af leið og uppbyggingin taki meira mið af því að hámarka ágóða félagsins og eigenda þess. Tíminn mun jafnframt leiða í ljós hvort Sigtún þróunarfélag muni halda áfram að vera í eigu núverandi aðila eða hvort hlutaféð verður selt einhverju fjárfestingafélagi og eini tilgangur með hugmyndinni hafi verið að fá vilyrði og síðar samning fyrir lóðaréttindum bæjarins sem ætlunin er að selja áfram.
Ljóst er að samningur sveitarfélagsins við Sigtún þróunarfélag og fyrirhuguð uppbygging hefur leitt til mikilla umræðna meðal bæjarbúa um málið og þeirrar staðreyndar að einn aðili skuli eiga að stjórna uppbyggingu og skipulagningu miðbæjarreitsins. Fyrir liggur að deiliskipulagið er unnið eftir hugmyndum forráðamanna Sigtúns þróunarfélags án beinnar þátttöku sveitarfélagsins. Út frá viðskipta- og samkeppnissjónarmiðum er óeðlilegt að sveitarfélagið leggi félaginu til lóðaréttindi og geri félaginu þannig kleift að komast þá stöðu að ráða yfir nær öllu húsnæðisrými á miðbæjarreitnum. Þá er ótækt er að ekki sé tekið meira tillit til annarra sjónarmiða en Sigtúns þróunarfélags við skipulagið. Einkum þegar litið er til þess að hér er verið að skipuleggja miðbæjarsvæði bæjarins, þ.m.t. lóðir sveitarfélagsins, sem eitt svæði.
Málið hefur verið umdeilt og andstaða við deiliskipulagið er af margvíslegum toga. Undirritaður telur rétt að sveitarfélagið hugi betur að hagsmunum sínum og bæjarbúa og fái fleiri aðila að uppbyggingu á svæðinu, þannig að sátt náist um skipulagið og ekki síður að tekið verði með skýrum hætti afstaða til hvernig útlit, form og stærð bygginga verði háttað.
Þegar sjónarmiðin eru tekin saman, þ.e. afhending lóðaréttinda án auglýsinga eða útboðs að verðmæti í besta falli hundruð milljóna króna og versta falli milljarða króna, að Sigtún þróunarfélag hafi frjálsar hendur með uppbyggingu og útlit bygginga á svæðinu, að miðbæjarreiturinn sé skipulagður og byggður upp af einum aðila, að ekki sé tekið nægjanlegt tilliti til athugasemda sem fram hafa komið, þá getur undirritaður ekki samþykkt deiliskipulagið eða breytingar á aðalskipulagi og greiðir því atkvæði gegn framlögðum breytingum.“ Viktor S. Pálsson fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingarnefnd.
Bókun bæjarfulltrúa S-lista á 43. fundi bæjarstjórnar vegna deiliskipulagsbreytinganna:
„Undirrituð taka undir bókun fulltrúa S-lista frá 48. fundi skipulags- og byggingarnefndar. Það er skoðun okkar að ekki sé rétt að staðfesta þær breytingartillögur á aðalskipulagi og deiliskipulagi miðbæjar Selfoss sem hér eru til afgreiðslu. Þrátt fyrir að ákveðið hafi verið með afar skömmum fyrirvara í dag að halda kynningarfund klukkutíma fyrir bæjarstjórnarfund, þar sem ekki allir bæjarfulltrúar gátu mætt, treystum við okkur ekki til þess að meta hvort verkefnið sé að fullu fjármagnað. Það er skoðun okkar að nauðsynlegt sé að sveitarfélagið fái óháðan aðila til þess að gera kostnaðaráætlun vegna þeirra framkvæmda sem Sigtún þróunarfélag hyggst fara í til samanburðar þeirri áætlun sem eigendur Sigtúns þróunarfélags hafa látið vinna fyrir sig. Undirrituð telja þetta vera algera forsendu til þess að bæjarfulltrúar geti tekið ábyrga afstöðu í þessu stóra máli og þannig gætt hagsmuna skattgreiðenda í sveitarfélaginu.“
Viktor S. Pálsson, fulltrúi S-lista í skipulags- og byggingarnefnd,
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi S-lista,
Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi S-lista.